'}}
Nauðsynlegt að áfrýja dómi héraðsdóms

Í Morgunblaðinu í gær tók blaðið m.a. viðtal við forstjóra Samkeppniseftirlitsins (SKE) þar sem fram kom í máli hans að enn liggi engin niðurstaða fyrir um hvort eftirlitið muni áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um gildi nýsamþykktrar undanþágu búvörulaga frá samkeppnislögum. Þetta verður að teljast í hæsta máta óeðlileg staða, nú einungis fjórum dögum áður en áfrýjunarfresturinn rennur út.

Frá því dómur héraðsdóms lá fyrir 18. nóvember sl. hafa fjölmargir hæstaréttarlögmenn stigið fram og lýst því yfir að áfrýjun í þessu máli sé beinlínis nauðsynleg. Eins hefur forseti Alþingis sagt að áfrýjun væri heppileg út frá fordæmisgildi. Fjölmargar ástæður eru fyrir áfrýjun.

Ástæður fyrir áfrýjun

Í fyrsta lagi telja margir stórfurðulegt að málinu hafi ekki verið vísað frá dómi þar sem ljóst er að SKE og Innnes ehf. höfðu í raun hags­muni af sömu niður­stöðunni en það liggur fyrir að SKE hefur lýst sig mótfallið lögunum frá upphafi. Í því efni vekur athygli að SKE gerða enga kröfu um frávísun málsins, sem telja má fullvíst að óháður aðili hefði gert kröfu um.

Í öðru lagi þá byggði Innnes ehf. m.a. á því að fyrirtækið, sem flytur inn kjötvörur, væri í beinni samkeppni við framleiðendafélög sem að þeirra mati gætu nýtt sér undanþáguna til þess að hafa samráð þegar kemur að því að bjóða í tollkvóta fyrir kjötvörur. Hér má benda á að ekkert í lagatexta frumvarpsins eða lögskýringargögnum bendir til þess að undanþágan eigi við um innflutning erlendra kjötvara eða kaup á tollkvótum vegna innflutnings. Þannig er með engum rökum hægt að halda að því fram að undanþágan taki til samstarfs vegna innflutnings á kjötvörum og útboðs á tollkvótum og að Innnes ehf. og framleiðendafélög séu samkeppnisaðilar í skilningi hinnar nýju undanþágu. SKE gerði engar efnislegar athugasemdir við þessa formhlið málsins og tekur í raun undir málatilbúnað Innnes ehf. hvað þetta varðar. Ljóst er að málatilbúnaður SKE virðist markast af almennri stöðu eftirlitsins til laganna.

Í þriðja lagi má benda á að málið var höfðað sem flýtimeðferðarmál og í því sambandi kaus Innnes ehf. að nefna ekki sérstaklega kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska – eini samruninn sem hafði verið boðaður þegar málinu var stefnt – og þar af leiðandi gátu félögin ekki haldið uppi vörnum. Úr varð sú staða að enginn aðili sem hafði lög­varða hags­muni í reynd af því að lögin héldu gildi sínu, hafði vitneskju um málið né átti aðild að málinu.

Auk þess vekur sérstaka athygli að íslenska ríkinu skuli ekki hafa verið stefnt til varnar. Með höfðun dómsmálsins var einungis SKE stefnt, sem gagnrýnt hefur þá undanþágu sem málið hverfist um en íslenska ríkinu var hins vegar sleppt – m.ö.o. matvælaráðuneytinu var ekki stefnt til að þola dóm um gildi þeirrar lagasetningar sem er á forræði ráðuneytisins og hafði því íslenska ríkið ekki möguleika á að taka til fullra varna varðandi gildi lagasetningar sem samþykkt var á Alþingi.

Heimildir löggjafans til lagasmíði

Hafa ber í huga að niðurstaða héraðsdóms réðst ekki af efnislegu gildissviði laganna heldur einungis því hvort lögin hefðu verið sett í samræmi við 44. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. hvort frumvarpið hafi í raun fengið þrjár umræður á Alþingi. Hér má benda á að í málinu liggur fyrir mat nefnda- og greiningarsviðs Alþingis um að frumvarpið hafi ekki gengið gegn 44. gr. stjórnarskrárinnar þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar voru í meðförum þingsins, enda fordæmi fyrir því að breytingartillögur nefnda gangi langt. Í minnisblaði skrifstofu Alþingis til nefndasviðs frá 21. mars sl. segir um þetta: „Breytingartillaga nefndarinnar er að efni og markmiði sambærileg því sem tilgreint er í frumvarpi matvælaráðherra. Gildissvið hins upphaflega frumvarps er fært út og útfærslu breytt en efni og markmiði áfram hið sama og er breytingunni m.a. ætlað að ná betur fram markmiðum þess.“ Dómurinn er því þvert á afstöðu Alþingis hvað þetta varðar.

Þá ber að minna á að fyrrverandi matvælaráðherra, sem lagði frumvarpið fram í upphaflegri mynd, hvatti hreinlega þingið til að gera breytingar með eftirfarandi orðum úr ræðustól Alþingis: „Þetta vil ég segja sem almenna brýningu til okkar allra og að lokum að þakka fyrir ábendingar sem komu fram hjá ýmsum þingmönnum […] um mikilvægi þess að skoða hér einstaka þætti frumvarpsins, hvort sem það lýtur að skilgreiningum, reglugerðarheimildum eða öðrum þáttum frumvarpsins. Ég held að þetta sé gott dæmi um mál sem þingið á að taka til kostanna og sýna hvað í því býr...“

Fjölmörg dæmi er unnt að finna í löggjafarstarfi þar sem þingnefnd hefur gert umtalsverðar breytingar á þingmálum sem eru til meðferðar, bæði með því að fjölga eða draga úr efniskröfum. Slík málsmeðferð hefur ekki verið talin brjóta gegn áskilnaði 44. gr. stjórnarskrárinnar svo lengi sem grundvelli hins upphaflega frumvarps sé ekki raskað. Uppfyllti umrætt frumvarp þetta skilyrði að mati Alþingis eins og minnisblað þess staðfestir. Niðurstaða héraðsdóms er þvert á það mat Alþingis og því vakna spurningar um hvort löggjafinn geti yfir höfuð lagt fram nauðsynlegar breytingar á frumvörpum í meðförum þingsins eða hvort eina hlutverk Alþingis sé að afgreiða stjórnarfrumvörp óbreytt.

Óboðlegt að áfrýja ekki

Upp er því komin fordæmalaus staða. Hugsanlegt er að fjölmörg lagaákvæði sem samþykkt hafa verið á Alþingi, ár og áratugi aftur í tímann, teljist ógild sé mælikvarði héraðsdóms lagður til grundvallar. Niðurstaða héraðsdóms skapar því ekki einungis mikla réttaróvissu fyrir kjötafurðastöðvar í landinu heldur er stjórnskipun landsins einnig undir. Það er því ekki boðlegt annað en að  ábyrgt stjórnvald eins og Samkeppniseftirlitið fái úr þessari óvissu skorið fyrir áfrýjunardómstól, hver sem skoðun eftirlitsins á efnisinnihaldi breytinganna sem urðu á búvörulögum kann að vera.

Höfundur er Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. nóvember 2024