Ríkislögmaður hefur sent beiðni til hæstaréttar þar sem óskað er leyfis til að ganga inn í mál Innnes gegn Samkeppniseftirlitinu um íhlutun gagnvart kjötafurðastöðvum sem hugðu á sameiningu. Í beiðninni er tekið undir kröfur Samkeppniseftirlitsins um ógildingu héraðsdóms. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.
Í síðasta mánuði felldi héraðsdómur úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á þeim grundvelli að undanþága fyrir kjötafurðarstöðvar frá ákvæðum samkeppnislaga, sem samþykktar voru á Alþingi í mars síðastliðnum, hefðu strítt gegn áskildum fjölda umræðna á Alþingi samkvæmt 44. gr. stjórnarskrárinnar og hafi af þeim sökum ekki lagagildi. Samkeppniseftirlitið hefur áfrýjað dómnum.
Í frétt RÚV kemur fram að forsætisráðuneytið hafi átt í samskiptum við ríkislögmann, Samkeppniseftirlitið, hlutaðeigandi ráðuneyti og skrifstofu Alþingis. Ríkislögmanni hafi verið falið að gæta hagsmuna ríkisins í málinu. Mikilvægt sé að svo afdrifarík og fordæmisgefandi túlkun á kröfum stjórnarskrár og þingskapalaga um þrjár umræður um lagafrumvörp, sem fram komi í héraðsdómnum, fái umfjöllun æðri dómstóls.