Í þætti dagsins er fyrst rætt við Elvar Eyvindsson, bónda og fulltrúa Lýðræðisflokksins, og síðan Þorstein Bergsson, rithöfund og fulltrúa Sósíalistaflokksins. Flokkarnir eiga það sameiginlegt að eiga ekki fulltrúa á þingi í dag og því fara þeir náið yfir stefnu flokkanna í landbúnaðarmálum. Lýðræðisflokkurinn leggur áherslu á stuðning við landbúnað út frá lýðheilsusjónarmiðum og Sósíalistaflokkurinn leggur áherslu á fjölbreyttari stuðning við landbúnað með áherslu á byggðafestu.
Lýðræðisflokkurinn vill draga úr þörf á innfluttum matvælum
"Fyrst er mjög gott að laga allt rekstrarumhverfið og grunninn og regluverkið og reyna að létta þetta allt eins og hægt er þannig að það sé auðveldara í grunninn að búa. En svo verður að koma til meira. Þegar að það kemur í ljós að það er ekki nóg þá held ég að það hljóti að þurfa að skoða tollverndina." segir Elvar aðspurður um tollvernd íslensks landbúnaðar.
Sósíalistar vilja binda kvóta við bújarðir
"Það sem við viljum sjá þar er að það verði hætt að braska með kvóta, þ.e.a.s. að hann verði ekki seljanlegur heldur bundinn við bújarðir. Það er framleiðslugetan á hverri jörð sem myndi þá skilgreina kvótann og okkur hugnast ekki þessi aðferð sem hefur verið þar sem menn hafa verslað með ávísanir frá ríkinu og litið á þær sem sína eign til lengri tíma, þar sem þetta er alltaf pólitískt mál hvernig landbúnaður er styrktur og hversu mikið." segir Þorsteinn.