'}}
Niðurstaða héraðsdóms vonbrigði

Í gær komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að breytingar á búvörulögum, þar sem framleiðendafélögum var veitt undanþága frá ákvæðum samkeppnislaga, sem samþykktar voru á Alþingi í mars síðastliðnum, hefðu strítt gegn áskildum fjölda umræðna á Alþingi samkvæmt 44. gr. stjórnarskrárinnar og hafi af þeim sökum ekki lagagildi.

Um er að ræða fordæmalausa stöðu þar sem framhaldið veltur á viðbrögðum Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið hefur nú sent kjötafurðastöðvum bréf þar sem farið er fram á eftirfarandi:

  • Að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið getur gegn samkeppnislögum og stofnast hefur til á grundvelli umræddra undanþáguheimilda.
  • Óskað er eftir upplýsingum hvort viðkomandi fyrirtæki hafi verið skilgreint sem framleiðendafélag í skilningi búvörulaga, en samkvæmt lagabreytingunum var það forsenda þess að kjötafurðastöðvar gætu nýtt sér undanþáguheimildirnar.
  • Hafi viðkomandi kjötafurðastöð ráðist í samruna eða samstarf á grundvelli undanþáguheimildanna er lagt fyrir fyrirtækið að varðveita allar upplýsingar og gögn sem varpa ljósi á þá háttsemi sem í hlut á. Í því sambandi er vakin athygli á því að það getur varðað fyrirtæki stjórnvaldssektum og einstaklinga refsingu að koma undan eða gera á annan hátt ónothæf gögn sem hafa þýðingu í síðari rannsóknum.

SAFL hefur sent bréf til stjórnar Samkeppniseftirlitsins þar sem farið er fram á að dómi héraðsdóms verði áfrýjað beint til Hæstaréttar svo fljótt sem unnt er og bendir á að málið fékk flýtimeðferð fyrir héraðsdómi.

Verður að telja að breytingar atvinnuveganefndar hafi rúmast innan þess ramma sem lagður var við framlagningu frumvarpsins á Alþingi en þar sagði matvælaráðherra: „Ég held að þetta sé gott dæmi um mál sem þingið á að taka til kostanna og sýna hvað í því býr og sýna hvað frumvarpið hefur að geyma þegar það er dregið úr því það mesta og mikilvægasta sem kemur til með að styðja við markmiðin sem við erum sammála um hér.“

Þá hefur einnig komið fram að dómurinn sé þvert á það sem fram kemur í minnisblaði skrifstofu Alþingis en þar segir: „Telja verður að þær breytingartillögur sem atvinnuveganefnd hefur haft til umfjöllunar uppfylli skilyrði stjórnskipunar um efnisleg tengsl og auðkenningu við það frumvarp sem nefndin hefur haft til athugunar. Samþykkt þeirra virðist ekki ganga gegn áskilnaði 44. gr. stjskr. um þrjár umræður lagafrumvarps.“

Nauðsynlegt að áfrýja til Hæstaréttar

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort Samkeppniseftirlitið muni áfrýja málinu til Hæstaréttar en að mati SAFL er nauðsynlegt að það verði gert enda ljóst að afar mikilvægt er að skera úr um þá réttaróvissu sem nú er uppi.

Hér er hægt að lesa bréf SAFL til stjórnar Samkeppniseftirlitsins