Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, kynnti í febrúar áherslur og verklag við gerð matvælastefnu í Samráðsgátt stjórnvalda. Síðan hefur vinnuhópur á vegum ráðuneytisins unnið að útfærslu stefnunnar og hafa nú verið gefin út drög að matvælastefnu sem ráðherra mun kynna á Matvælaþingi 22. nóvember.
Samkvæmt frétt á vef ráðuneytisins er Matvælastefnu ætlað að verða leiðarljós fyrir stefnumörkun í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi. Henni er ekki ætlað að fella fyrri stefnumótanir úr gildi heldur styrkja stoðir þeirra, einkum þær sem heyra undir matvælaráðuneytið.
Á Matvælaþingi þannn 22. nóvember verður matvælastefnan rædd og reifuð. Ekki er verið að kynna fullmótaða stefnu, heldur drög. Tilgangur þingsins er því meðal annars að kalla eftir frjórri umræðu og skoðanaskiptum. Í framhaldinu verður unnið úr þeirri umræðu og niðurstöður hennar nýttar sem innlegg í endanlega matvælastefnu. Í kjölfarið verður stefnan birt á samráðsgátt stjórnvalda og að lokum lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunar.
Til grundvallar matvælastefnu liggur stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar þar sem segir meðal annars að íslenskur landbúnaður, sjávarútvegur og fiskeldi séu þungamiðja í innlendri matvælaframleiðslu sem verði efld á kjörtímabilinu.
„Matvælaframleiðsla heimsins hefur breyst hratt á síðustu misserum og það má gera ráð fyrir enn stærri breytingum á komandi árum. Sem matvælaframleiðendur þurfum við hér á Íslandi að marka okkur skýra, sjálfbæra og umhverfisvæna matvælastefnu sem getur aðlagast að síbreytilegum aðstæðum,“ segir Svandís Svavarsdóttir. „Ég legg þessa vel unnu afurð fyrir matvælaþing og hlakka til að skiptast á skoðunum við þinggesti um eitt okkar stærsta framtíðarmálefni.“