'}}
Íslendingar vilja að landbúnaðarvörur séu framleiddar innanlands 

Fjórir af hverjum fimm landsmönnum telja að allar eða flestar landbúnaðarvörur á íslenskum matvælamarkaði ættu að vera framleiddar innanlands.

Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem var framkvæmd af Gallup fyrir Bændasamtök Íslands (BÍ) og Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) á tímabilinu 7. – 17. nóvember 2024. 

Samkvæmt niðurstöðunum vilja tæplega 80% landsmanna að landbúnaðarvörur séu framleiddar innanlands, fremur en að þær séu fluttar hingað inn. Þegar rýnt er nánar í niðurstöðurnar kemur fram að 19,9% svarenda telji að það ætti að framleiða ALLAR landbúnaðarvörur innanlands, meðan 59,7% telji að framleiða ætti þær FLESTAR innanlands.  

Á hverju ári framleiða íslenskir bændur um 30.000 tonn af kjöti, 13.000 tonn af grænmeti og 150 milljón lítra af mjólk. Framleiðslan fer fram á um 3.150 býlum hringinn í kringum landið og mikill fjöldi fólks kemur að framleiðslu, vinnslu, flutningi og sölu og framreiðslu matvæla til neytenda. Til þess að landsmenn allir geti kosið íslenskar landbúnaðarvörur í sínum matarinnkaupum þarf að auka innlenda framleiðslu með bættum stuðningi og betra starfsumhverfi fyrir greinina.

,,Könnun okkar leiðir í ljós að Íslendingar vilja íslenska matvöru þegar þeir hafa kost á henni, og telja að íslenskir bændur og matvælaframleiðendur eigi að sjá þjóðinni fyrir landbúnaðarvörum. Almenningur vill greinilega ekki þurfa að reiða sig um of á innflutning. Þetta eru skýr skilaboð frá fólkinu í landinu um að styrkja þurfi stoðir landbúnaðarins og tryggja greininni sambærilega umgjörð og hjá löndum sem við viljum bera okkur saman við svo að þetta dæmi geti gengið upp. Við söknum aukinnar opinberrar umræðu um þetta mikilvæga mál hjá stjórnmálaflokkunum sem eru um þessar mundir að reyna að koma upplýsingum um stefnumál sín til kjósenda - þetta skiptir fólkið í landinu máli,” segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.

,,Þetta eru vissulega ánægjulegar niðurstöður. Ég lít á þær sem mikið traust til bænda og afurða þeirra og um leið öflugan stuðning við landbúnað okkar hér innanlands. Okkur hefur gengið vel í aðdraganda kosninganna að ná augum og eyrum stjórnmálamanna gagnvart þeim miklu tækifærum sem blasa við íslenskum bændum. Vonandi er að þessi mæling á hjartslætti þjóðarinnar verði nýrri ríkisstjórn ofarlega í huga þegar hún setur kúrsinn fyrir nýja búvörusamninga sem treysta undirstöður íslensks landbúnaðar til langrar framtíðar. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að auka þarf innlenda matvælaframleiðslu umtalsvert á komandi árum til að mæta aukinni eftirspurn vegna fólksfjölgunar, hvort sem um ræði íbúa landsins eða ferðamenn. Til þess að tryggja að framleiðslan geti haldið í við eftirspurnina og uppfyllt vilja 80% landsmanna um að geta valið íslenskan mat á diskinn sinn, þurfum við bændur og það þarf að bæta starfsskilyrðin í landbúnaði. ” segir Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.