Í öðrum þætti Á hlaðinu ræðir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, við Heiðbrá Ólafsdóttur, lögfræðing, kúabónda og frambjóðanda Miðflokksins í Suðurkjördæmi og Daða Má Kristófersson, prófessor við Háskóla Íslands og varaformann Viðreisnar. Voru þau sammála um að eitt mikilvægasta verkefnið framundan sé að tryggja nýliðun í landbúnaði.
Viðreisn vill frekar beinan stuðning en tollvernd
Í umræðum um tollvernd segir Daði Már: "Við höfum valið að leggja tolla á innfluttar landbúnaðarvörur af ástæðum sem hér hafa verið nefndar, við höfum talið að landbúnaðurinn gegni hlutverki í samfélaginu sem að nær út fyrir það sem er svona framleiðslan eingöngu, þ.e.a.s. einhvers konar akkeri í byggðaþróun á Íslandi. Það væri miklu heppilegra að þessi stuðningur og þetta markmið um að hafa akkeri víðs vegar um landið væri fjármagnað beint, ekki í gegnum tollana." Aðspurður hvort Viðreisn myndi leggja það til að lækka eða afnema tolla einhliða segir Daði Már: "Nei, alþjóðaviðskipti eru aldrei stunduð þannig [...] Það að gera einhliða tollalækkanir er mjög skrítið. [...] Við þurfum hins vegar að horfast líka í augu við það að ef þú gerir samninga, skiptir ekki máli hvernig þeir eru, það sem að aðili eða einhverjir aðilar í íslensku samfélagi hagnast en aðrir tapa að þá verðum við auðvitað líka að koma til móts við þá sem tapa."
Miðflokkurinn vill yfirfara innleiðingu regluverks frá A-Ö
Aðspurð um hvort stjórnvöld eigi að koma til móts við greinina vegna aukins íþyngjandi regluverks að utan segir Heiðbrá: "Það liggur alveg ljóst fyrir að það þarf bara að fara í gegnum allt regluverkið frá A-Ö, sjá hvað á við íslenskar aðstæður og hvað ekki. Það er ekki svo að það sé hægt að leggja meira á bændur, nóg er komið nú þegar. Frekari aðgerðir [í loftslagsmálum] mega ekki koma niður á framleiðslu afurða hér í landinu."