'}}
Á hlaðinu – Framsókn og Píratar

Í þætti dagsins er rætt við Sigurð Inga Jóhannsson, fjármálaráðherra og formann Framsóknar og síðan kemur Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks frá Pírötum. Í þættinum kemur m.a. fram að Framsókn vill endurskoða tollaumhverfið og Píratar leggja mikla áherslu á dýravelferð og umhverfisvernd í landbúnaði.

Framsókn vilja herða regluverk um uppkaup jarða

"Við þurfum að hvetja til áframhaldandi nýtingar á þessu góða landi okkar. Og ég hef áhyggjur af því, og við í Framsókn, að þar séu áskoranir sem við þurfum að taka á. Að það landbúnaðarland sem sé gott til ræktunar og búvöruframleiðslu sé varið, bæði af sveitarfélögum í gegnum skipulagsvaldið en líka af ríkinu gagnvart uppkaupum á jörðum. Það er vaxandi ásókn aðila vegna þess að þeir eru að kaupa sér land til þess að fara í skógrækt eða aðra kolefnisbindingu og ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum að skoða." segir Sigurður.

Píratar vilja sömu kröfur á innfluttar og innlendar landbúnaðarvörur

Um innflutning á landbúnaðarvörum segir Ugla: "Það eru ekki lagðar sömu kröfur. Þá erum við kannski að fá afurðir sem eru unnar við gjörsamlega óviðunanandi aðstæður, oft í þauleldi í mjög erfiðum aðstæðum þar sem er komið illa fram við dýr, þar sem eru ekki sömu gæðakröfur, það er verið að nota mikið af gerviefnum, allskonar hlutir sem eru lagðar miklu skýrari kröfur á íslenskan landbúnað. Ef við ætlum að sjá til þess að íslenskur landbúnaður geti blómstrað og lifað af þá getum við ekki tekið alla tolla af innfluttum matvörum. Íslenskur landbúnaður myndi bara ekki lifa það af. Þetta þarf að vera sanngjarnt kerfi þar sem íslenskir bændur upplifa ekki að einhverjir erlendir bændur geti bara þurfi ekki að uppfylla sömu kröfur. Hjá okkur snýst þetta aðallega um það að það þurfa allir að sitja við sama borð."

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið með því að smella hér.