Íslenska lambakjötið ríkt af næringarefnum

Nýlega lauk verkefni sem styrkt var af Matvælasjóði og bar yfirskriftina Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða. Verkefnið var unnið af Matís og markaðsstofunni Íslenskt lambakjöt, í nánu samstarfi við afurðastöðvarnar Kjarnafæði-Norðlenska/SAH Afurðir á Blönduósi, Sláturfélag Suðurlands og kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga. Þetta kemur fram í frétt á vef Matís.

Framleiðni aukist um 30%

Í verkefninu var gerð úttekt á nýtingarhlutföllum innan kjötmatsflokka lambakjöts en lambakjöt er almennt flokkað í 40 flokka á sláturhúsi og eftir því fá bændur greitt. Undanfarin ár hafa bændur staðið í miklu kynbótastarfi sem hefur skilað sér í aukinni framleiðni kjöts á hverja kind um u.þ.b. 30%. Það hefur í för með sér að þeir flokkar kjöts sem eru algengastir í dag m.t.t. hlutfalls vöðva og fitu á móti beinum, eru allt aðrir flokkar en þeir sem voru algengastir fyrir 20-30 árum.

Lambakjötið ríkt af næringarefnum

Auk þess voru gerðar mælingar á næringarefnum og þungmálmum en fyrri gögn um næringarefnagildi voru um 20-30 ára gömul. Í ljós kom að lambakjötið var það ríkt af B12-vítamíni, fólat vítamíni, kalíum og sínki að leyfilegt er að merkja þessi efni sem hluta af næringargildismerkingu kjötsins á umbúðum.

Þungmálmarnir kvikasilfur, kadmín, blý og arsen voru ekki mælanlegir í kjötinu, þ.e. voru undir þeim mörkum sem mögulegt var að mæla með öryggi. Þessi mörk eru mjög lág og því er mögulegur styrkur þungmálmanna afar lágur.

Kjötmatið sanngjarnt og fullnægjandi

Þriðji útgangspunktur rannsóknarinnar var svo athugun á því hvort kjötmatið sem framkvæmt er á Íslandi væri sanngjarnt og fullnægjandi. Hlutfall kjöts, fitu og beina í mismunandi gæðaflokkum staðfesti að kjötmat á Íslandi er raunhæft og í samræmi við skilgreiningar sem liggja að baki matinu að evrópskri fyrirmynd.

Hér má lesa skýrsluna í heild og skoða nánari útlistun á mælingunum.

Hér má hlusta á hlaðvarpsþátt Matís, Matvælið, þar sem Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri markaðsstofunnar Íslenskt lambakjöt og Óli Þór Hilmarsson, verkefnastjóri hjá Matís ræddu um framkvæmd og niðurstöður verkefnisins.

Close menu