'}}
EES-grýlan er engin grýla

Í kjölfar samþykktar á breytingum á búvörulögum fyrir páska kom fram þónokkur gagnrýni á lögin og héldu sumir því fram að þau gætu gengið gegn EES-samningnum. Samtök fyrirtækja í landbúnaði hafa þó bent á í allnokkurn tíma að kjötafurðir eru undanskildar EES-samningnum og því gætu þessar hugmyndir vart staðist. Nú hefur Dr. Carl Baudenbacher, fyrrum forseti EFTA-dómstólsins, staðfest að framleiðsla og vinnsla landbúnaðarafurða, þ.m.t. kjötvara, eru undanþegnar EES-samningnum nema annað sé sérstaklega tilgreint í bókunum eða viðaukum. Ísland hefur því víðtækt svigrúm til að setja sínar eigin reglur um framleiðslu og vinnslu kjötafurða sem og annarra afurða sem eru sérstaklega undanskildar samningnum, þ.m.t. varðandi undanþágur frá samkeppnisreglum.

Íslandi fullfrjálst að móta sínar undanþágur

Með breytingu búvörulaga var samþykkt undanþága frá samkeppnislögum fyrir afurðastöðvar í kjöti til sameiningar, verkaskiptingar og samvinnu til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Meðal þeirra sem hafa haldið því á lofti að lögin gætu gengið gegn EES-samningnum eru Samkeppniseftirlitið, Félag atvinnurekenda, VR og Neytendasamtökin. Í þeirri gagnrýni hefur þó lítið farið fyrir því að vísað sé í réttarheimildir þessu til stuðnings.

Í áliti Baudenbacher er farið ítarlega yfir inntak og eðli EES-samningsins og að hvaða marki hann tekur til landbúnaðarframleiðslu. Í stuttu máli staðfestir Baudenbacher að það sé innan valdssviðs Íslands, sem og annarra samningsaðila EES-samningsins, að setja almennar reglur um framleiðslu og vinnslu þeirra landbúnaðarafurða sem undanskildar eru EES-samningnum á grundvelli 3. mgr. 8. gr. samningsins, þ.m.t. samkeppnisreglur eða undanþágur frá þeim. Í því sambandi er Ísland almennt hvorki bundið af reglum ESB né útfærslum annarra landa hvað undanþágur varðar. 

Rétt er þó að geta þess að heilbrigðis- og matvælareglur, sem skarast þó ekki á við undanþágur frá samkeppnisreglum, hafa verið sérstaklega teknar upp í samninginn með viðaukum og bókunum og eiga því eftir sem áður við. Hins vegar er alveg ljóst að EES-samningurinn, þ.m.t. ríkisstyrkja- og samkeppnisreglur hans, taka ekki til lifandi dýra og framleiðslu kjöts af lifandi dýrum nema annað sé sérstaklega tekið fram í bókunum eða viðaukum.

Þyrlað upp ryki

Að framangreindu er ljóst að mat Samkeppniseftirlitsins, sem birst hefur í fjölmörgum umsögnum þess, um samband EES-samningsins og landbúnaðar og að lögin gangi mögulega gegn EES-samningnum, er rangt.

Þannig er ljóst að breytingarnar sem gerðar voru á búvörulögum taka samkvæmt orðanna hljóðan eingöngu til slátrunar og/eða vinnslu kjötafurða og afleiddra afurða, ekki til annarrar vöru eða þjónustu. Þær vörur eru undanskildar EES-samningnum, og þar með talið geymsla og flutningur á þeim. Með þessu áliti Baudenbacher er tekin af allur vafi um heimild íslenska ríkisins til að setja undanþágur frá samkeppnislögum varðandi slátrun og/vinnslu kjötafurða og tengdar aðgerðir.

Vel má vera að menn séu ósammála þessari breytingu sem varð á búvörulögum en það er ekki neinum til gagns að búa til grýlu úr EES-samningnum í því skyni að gera lögin tortryggileg. Í því samhengi er vert að benda á að grundvallarmunur er á markmiðsákvæðum samkeppnislaga og búvörulaga. Á því hefur verið víðtækur skilningur innan ESB og í Noregi þar sem undanþágur frá samkeppnislögum til handa landbúnaðinum hafa verið við líði um áratugaskeið, með góðum árangri fyrir bændur og neytendur.

Höfundur er Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júní 2024