Framleiðsla og vinnsla landbúnaðarafurða, þ.m.t. kjötvara, eru undanþegnar EES-samningnum nema annað sé sérstaklega tilgreint í bókunum eða viðaukum. Ísland hefur því víðtækt svigrúm til að setja sínar eigin reglur um framleiðslu og vinnslu kjötafurða, sem og annarra afurða sem eru sérstaklega undanskildar samningnum, þ.m.t. varðandi undanþágur frá samkeppnisreglum. Þetta kemur fram í áliti dr. Carl Baudenbacher, fyrrum forseta EFTA-dómstólsins, sem unnið var fyrir Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) sem eru aðildarsamtök Samtaka iðnaðarins (SI).
Í mars síðastliðnum voru samþykkt lög á Alþingi sem heimila afurðafyrirtækjum í kjöti að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli afurðastöðva að því er varðar framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Fram að því hafði Ísland, eitt landa innan EES, ekki búið við undanþágur frá samkeppnislögum til handa afurðastöðvum í kjöti.
Í framhaldi af samþykkt laganna hefur komið fram gagnrýni á lögin og því m.a. haldið fram að þau gætu mögulega gengið gegn ákvæðum EES-samningsins. Samtök fyrirtækja í landbúnaði hafa bent á að svo geti ekki verið, enda eru þær vörur sem undanþágan nær til, þ.e. kjötafurðir, undanskildar EES-samningnum.
Nú hefur dr. Baudenbacher, með áliti sínu, staðfest þennan skilning SAFL svo ekki verður um villst. Samkvæmt álitinu hefur Ísland fullt frelsi til að setja eigin reglur um framleiðslu og vinnslu kjötafurða og annarra afurða sem sérstaklega eru undanskilin EES-samningnum, þ.m.t. varðandi undanþágur frá samkeppnisreglum.
Í álitinu er m.a. vísað í dóma EFTA-dómstólsins, afstöðu framkvæmdastjórnar ESB og ESA í einstökum málum, afstöðu íslenskra og norskra stjórnvalda og umfjöllun fræðimanna á sviði EES-réttar. Niðurstaðan er að ákvæði EES-samningsins, þ.m.t. ríkisstyrkja- og samkeppnisreglur hans, taka ekki til framleiðslu kjöts af lifandi dýrum nema annað sé sérstaklega tekið fram.
Í áliti dr. Baudenbacher er farið ítarlega yfir inntak og eðli EES-samningsins og að hvaða marki hann tekur til landbúnaðarframleiðslu. Álitið staðfestir að það sé innan valdssviðs Íslands, sem og annarra samningsaðila EES-samningsins, að setja almennar reglur um framleiðslu og vinnslu þeirra landbúnaðarafurða sem undanskildar eru EES-samningnum á grundvelli 3. mgr. 8. gr. samningsins, þ.m.t. samkeppnisreglur eða undanþágur frá þeim. Í því sambandi er Ísland almennt hvorki bundið af reglum ESB né útfærslum annarra landa hvað undanþágur varðar.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Álit dr. Baudenbacher styður afdráttarlaust við sjálfsákvörðunarrétt Íslands gagnvart Evrópusambandinu í landbúnaðarmálum. Það er ljóst samkvæmt því að við höfum um langt skeið sett matvælaframleiðendum í landbúnaði hér á landi þrengri rekstrarskilyrði en nágrannalönd okkar og mun þrengri en skuldbindingar gagnvart EES-samningnum gefa tilefni til. Samtök iðnaðarins hvetja stjórnvöld eindregið til þess að stuðla að sjálfbærri og samkeppnishæfri innlendri framleiðslu án óþarflega hamlandi takmarkana.“
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri SAFL: „Ljóst er að breytingarnar sem gerðar voru á búvörulögum taka samkvæmt orðanna hljóðan eingöngu til slátrunar og/eða vinnslu kjötafurða og afleiddra afurða, ekki til annarrar vöru eða þjónustu. Þær vörur eru undanskildar EES-samningnum, sem og geymsla og flutningur á þeim. Með þessu áliti dr. Baudenbacher er því tekinn af allur vafi um heimild íslenska ríkisins til að setja undanþágur frá samkeppnislögum varðandi slátrun og vinnslu kjötafurða.“
Álit Dr. Baudenbacher má lesa í heild sinni með því að smella hér