'}}
Hinn gullni meðalvegur nýtingar og verndar

Allt virðist á suðupunkti í landbúnaði í Evrópu um þessar mundir. Þann 29. janúar sl. keyrðu franskir bændur dráttarvélum sínum inn í París eftir margra daga mótmæli um allt landið. Koma þessi mótmæli í kjölfar mótmæla þýskra bænda undanfarnar vikur og fyrir stuttu hófust einnig mótmæli bænda í Belgíu, Rúmeníu og Póllandi.

Rauði þráður mótmælanna eru kostnaðarsamar og umfangsmiklar kröfur ESB vegna umhverfismála, óhóflegur innflutningur landbúnaðarvara og sífellt meira íþyngjandi regluverk af hvers kyns tagi. Sjálfbærnistefna ESB er gagnrýnd mjög og bændur eiga erfitt með að keppa við innflutning frá svæðum sem búa ekki við jafn kostnaðarsamar og íþyngjandi reglur og gilda á þeirra svæðum. Þá leggjast bændur gegn gerð nýs samnings við MERCOSUR ríkin svokölluðu sem mun auka innflutning landbúnaðarvara frá Suður-Ameríku til ESB.

Luc Vernet hjá hugveitunni Farm Europe rammaði vandann inn með þeim orðum að sífellt sé ætlast til að bændur geri meira fyrir minni stuðning og þeir hreinlega sjái ekki lengur hvernig þeir geti ráðið við það. Morgan Ody frá frönsku bændasamtökunum tekur í sama streng og segir kröfu franskra bænda vera skýra, þeir vilji einfaldlega geta lifað mannsæmandi lífi. Rímar þetta ágætlega við kröfu Samtaka ungra bænda hér á landi sem blésu til baráttufundar í haust undir yfirskriftinni „Laun fyrir lífi“.

Þó svo ESB virðist hafa vaknað til vitundar um megna óánægju bænda og hafi m.a. hafið viðræður milli forsvarsmanna landbúnaðarins og Evrópuþingsins eru skilaboð ESB um lausnir óskýr að mati talsmanna bænda. Bændum líði einfaldlega eins og þeir séu gleymdir og sviknir og staðan er orðin svo slæm að margir tala um að eiga ekki lengur í sig og á, þrátt fyrir 70 tíma vinnuviku.

Samkeppnisstaðan veikist

Víða er þrengt að matvælaframleiðslu í hinum vestræna heimi undir formerkjum sjálfbærni- og umhverfismála. Bændur skulu draga úr notkun aðfanga, hvort sem það er olía, áburður, varnarefni eða annað, takmarka skal notkun ræktarlands, skipta hefðbundinni framleiðslu út fyrir lífræna og svo lengi má telja. Grófasta dæmið um aðgerð í þágu loftslagsmála er líklega það þegar hollensk yfirvöld boðuðu fækkun búfjár um þriðjung til að minnka losun frá landbúnaði. Þessar breytingar munu leiða af sér minni framleiðslu og aukinn kostnað á sama tíma og fólksfjöldi eykst í heiminum með tilheyrandi aukinni eftirspurn eftir matvælum. Þó svo markmiðið sé göfugt mun þessi stefna leiða til veikari samkeppnisstöðu evrópsks landbúnaðar gagnvart innflutningi frá öðrum svæðum sem ekki búa við sömu kröfur. Minni framleiðslu heima fyrir er svo einfaldlega svarað með auknum innflutningi.

Hér má t.d. nefna að óheftur innflutningur á landbúnaðarvörum frá Úkraínu hefur tekið sinn toll. Verði á landbúnaðarvörum í nágrannalöndum eins og Ungverjalandi, Póllandi og Rúmeníu var skyndilega þrýst niður og bændur áttu í erfiðleikum með að selja framleiðslu sína sem leiddi m.a. til mótmæla pólskra bænda á landsvísu 24. janúar sl. Í kjölfarið lofaði forsætisráðherra Póllands að hitta fulltrúa Úkraínu í byrjun marsmánaðar til að ná samkomulagi um viðskipti með landbúnaðarvörur á milli landanna.

Sjálfbær nýting landsins

Allt ofantalið þekkja íslenskir bændur ágætlega. Við búum þó svo vel að hérlendis er minnsta notkun á varnarefnum og eitt lægsta álag á vatnsauðlindir sem þekkist innan OECD sem og næstminnstu notkun sýklalyfja á eftir Noregi. Af því getum við verið stolt og þá stöðu ber vissulega að vernda. En nú er svo komið að dæmi er um að bændur geti ekki lengur girt af land sitt vegna meints jarðrasks við girðingarvinnu og ef ný drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu verða að veruleika mega ekki lengur myndast pollar eða slóðar á landi bænda án þess að þeir eigi á hættu ávirðingar af hendi hins opinbera.

Annað hvort er verið að fara alltof geyst í skrifræðinu eða við erum hreinlega komin út af sporinu. Það getur ekki verið vilji okkar að gera regluverk svo íþyngjandi og heftandi fyrir athafnafrelsi manna að bændur eða aðrir geti ekki hreyft sig án skýrslugjafar til stjórnvalda þar um. Sjálfbær landnýting getur ekki þýtt að ástand lands megi ekki breytast með nokkrum hætti heldur hljótum við að vilja líta til þess að land sé í framför og betri nýtingar. Þá verður  einnig að hafa í huga að aukinn kostnaður sem fylgir jafnan auknum kröfum hlýtur að koma einhvers staðar fram.

Stöðva þarf blýhúðun

Við getum ekki innleitt reglur í blindni fyrir afleiðingunum og eigum að forðast alla blýhúðun. Framleiðslukostnaður á Íslandi er alveg nógu hár til að á hann sé smurt meir, að því sem virðist að ástæðulausu. Ef við höfum ekki samkeppnishæfni landbúnaðar, sem og annarra atvinnugreina landsins, til hliðsjónar við setningu nýrra laga og reglna getur fljótt fjarað undan og við vöknum fyrr en varir upp við vondan draum.

Höfundur er Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. febrúar 2024