Gjaldskrá MAST ekki hækkuð á næstunni

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hyggst ekki hækka gjaldskrá Matvælastofnunar að svo stöddu. Þetta kom fram í færslu ráðherra á facebook. Þá segir að hún muni beita sér fyrir því að önnur lausn verði fundin til að bæta fjárhag Matvælastofnunar.

Drög að nýrri gjaldskrá sem kynnt voru í samráðsgátt í mars sl. hafa hlotið mikla gagnrýni undanfarna daga í kjölfar þess að Seglbúðir tilkynntu að ekki yrði slátrað hjá þeim í haust og töldu boðaða breytingu gjaldskrárinnar sem eina ástæðu þess.

Í færslu ráðherra á facebook segir: "Undanfarna daga hefur verið rætt um mögulega hækkun á gjaldskrá Matvælastofnunar og hugsanleg áhrif þeirrar hækkunar. Að því tilefni vil ég taka fram að ég hef ekki staðfest hækkun á gjaldskrá og hyggst ekki gera það að svo stöddu. Stýrivextir voru hækkaðir um miðja þessa viku og standa meginvextir bankans nú í 9,25%. Verðbólga hefur verið yfir markmiði um langa hríð og vextir hækkaðir 14 sinnum í röð. Það er brýnt hagsmunamál almennings að við náum verðbólgu og vaxtastigi í landinu niður með þeim úrræðum sem unnt er. Margar fjölskyldur eiga í erfiðleikum með að ná endum saman og því kemur að mínu mati ekki til álita nú að taka ákvarðanir sem leitt geta til hækkandi matvælaverðs. Ég mun beita mér fyrir því að önnur lausn verði fundin til að bæta fjárhag Matvælastofnunar svo hún geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki í þágu matvælaöryggis og dýravelferðar. Mikilvægt er að við leggjumst öll á árar gegn verðbólgu og vaxtahækkunum því þar liggja hagsmunir samfélagsins alls og heimilanna í landinu."