'}}
Drög að nýrri gjaldskrá MAST skaðleg íslenskum landbúnaði

Þann 2. mars síðastliðinn birti matvælaráðuneytið drög að gjaldskrá Matvælastofnunar í samráðsgátt stjórnvalda. Fela þessi drög að nýrri gjaldskrá í sér grundvallarbreytingu á innheimtu eftirlitsgjalda og gríðarlegan kostnaðarauka fyrir landbúnaðinn.

Þannig má nefna að með nýrri gjaldskrá myndi innheimt gjald fyrir daglegt eftirlit í sláturhúsum hækka um 217.331.695 kr. á árgrundvelli eða úr 131 milljón kr. í 348 milljón kr. sem þýðir hækkun um 166%. Auk þess er gert ráð fyrir að gjald fyrir almennt eftirlit hækki um 264.775.120 kr. á ársgrundvelli eða úr 306 m.kr. í 571 m.kr. sem þýðir hækkun um 87%.

Er þessi hækkun boðuð á sama tíma og alger óvissa er uppi um hvort fyrirtæki í slátrun og kjötvinnslu verði gert kleift að ná fram nauðsynlegri endurskipulagninu og hagræðingu. Í ljósi þessa sendu Samtök fyrirtækja í landbúnaði, ásamt Bændasamtökum Íslands, sameiginlegt erindi til matvælaráðuneytisins þann 31. mars sl. þar sem þess var farið á leit við ráðuneytið að drögin yrðu dregin til baka.

Ósamræmi í gjaldskrá og frumvarpi um gjaldtökuheimildir MAST

Það vekur athygli að drög að nýrri gjaldskrá MAST séu kynnt í samráðsgátt nú þar sem lagafrumvarp um breytingu á ýmsum lögum er varða opinbert eftirlit Matvælastofnunar (samræming gjaldtökuheimilda) hefur ekki verið samþykkt á Alþingi, en gjaldskráin byggir á því. Því telja SAFL enga lagaheimild vera til staðar fyrir hinni nýju gjaldskrá.

Þá er vert að nefna að í greinargerð með fyrrnefndu frumvarpi kemur fram að gera megi ráð fyrir að lögbundnar rekstrartekjur Matvælastofnunar hækki um 300-400 milljónir króna frá því sem nú er með nýrri gjaldskrá, en í greinargerð með drögum að gjaldskrá MAST kemur fram að upphæðin nemi rúmlega 482 milljónum króna. Um er að ræða í besta falli rúmlega 20% meiri hækkun en boðuð var í umræddu frumvarpi og í versta falli rúmlega 60% hækkun.

Umsögn SAFL má lesa í heild sinni með því að smella hér.