Á Búnaðarþingi Bændasamtaka Íslands sem nú stendur yfir var samþykkt ályktun þar sem stjórn BÍ er falið að taka þátt í stofnun nýrra heildarsamtaka í landbúnaði ásamt Samtökum fyrirtækja í landbúnaði.
Hugmyndir að nýjum heildarsamtökum í landbúnaði voru kynntar á Búgreinaþingi í lok febrúar og fyrir félagsmönnum Samtaka fyrirtækja í landbúnaði 27. mars síðastliðinn. Ný samtök yrðu byggð sameiginlega á BÍ og SAFL.
„Þetta er afar ánægjuleg niðurstaða og jákvætt skref fyrir landbúnaðinn í heild. Stærstu hagsmunamál landbúnaðarins snúa að sameiginlegum hagsmunum bænda og fyrirtækja í landbúnaði og því borðliggjandi að sameina krafta þessara tveggja stoða með sameiginlegum samstarfsvettvangi.“ segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri SAFL.
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi alþingismaður og landbúnaðarráðherra, og Sigurgeir Þorgeirsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra BÍ og ráðuneytisstjóra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, hafa unnið að málinu og byggir hugmyndin á fyrirmynd dönsku heildarsamtakanna Landbrug & fødevarer frá árunum 2009–2022. Þá voru dönsku samtökin sett saman af tveimur stoðum; bændahlið og fyrirtækjahlið.
Aðdraganda vinnunnar að þessum hugmyndum má rekja til ályktana á undanförnum þremur Búnaðarþingum. Samtök fyrirtækja í landbúnaði voru stofnuð snemma árs 2022 og í framhaldinu hófst samtal milli BÍ og SAFL með milligöngu þeirra Steingríms og Sigurgeirs.
Markmið þessara breytinga er að nýta samanlagðan styrk bænda og fyrirtækja í þágu heildarhagsmuna landbúnaðarins.