Samþykktir

 

1. Nafn, heimili, varnarþing og tilgangur:

1.1. Samtökin heita Samtök fyrirtækja í landbúnaði, skammstafað SAFL. Heimili þeirra, skrifstofa og varnarþing eru í Reykjavík.

1.2. Tilgangur samtakanna er:

  1. Að stuðla að hagkvæmni íslensks landbúnaðar og íslenskra landbúnaðar­fyrirtækja.
  2. Að styðja við nýsköpun og menntun tengda landbúnaði.
  3. Að efla skilning og ímynd og stuðla að upplýstri umræðu um íslenskan landbúnað.
  4. Að taka þátt í alþjóðasamstarfi og gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar á erlendum vettvangi.
  5. Að vera í forsvari gagnvart stjórnvöldum í málum er snerta hagsmuni og réttindi félagsmanna.
  6. Að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna.
  7. Að vinna að eflingu rannsókna og sjálfbærni íslensks landbúnaðar.
  8. Að efla ímynd og styrkja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar.

2. Aðild að samtökunum:

2.1. Aðild að samtökunum geta átt fyrirtæki og sjálfstæðir atvinnurekendur sem starfa í landbúnaði. Aðilar að samtökunum eru í samþykktum þessum nefndir félagsmenn.

2.2. Umsókn um aðild að samtökunum skal senda skriflega til stjórnar samtakanna ásamt upplýsingum um stjórn umsækjanda, lykilstjórnendur, starfssvið, launa­greiðslur og veltu. Beiðni um aðild að samtökunum telst samþykkt ef meirihluti stjórnar samtakanna samþykkir hana.

2.3. Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) eru aðilar að Samtökum iðnaðarins (SI) og félagsmenn SAFL skulu allir vera aðilar að SI, að því gefnu að félagsmenn SAFL uppfylli skilyrði SI um inngöngu. Þegar fyrirtæki í landbúnaðartengdri starfsemi gengur í SI skal SI bera umsóknina undir SAFL. Aðild að SAFL og þar með talið SI felur jafnframt í sér beina aðild félagsmanna að Samtökum atvinnulífsins (SA) með þeim réttindum og skyldum sem kveðið er á um í samþykktum SA.

2.4. SAFL og SA annast gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn og taka ákvarðanir um vinnustöðvanir í samræmi við samþykktir SAFL og SA og lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

2.5 Ákvörðun um verkbann skal borin undir alla félagsmenn í SAFL í sameiginlegri leynilegri atkvæðagreiðslu. Ef ákvörðun um verkbann tekur einungis til hluta félagsmanna SAFL skal heimilt að aðeins þeir sem málið varðar hafi atkvæðisrétt. Komi til atkvæðagreiðslu um kjarasamninga skulu sömu ákvæði gilda og um atkvæðagreiðslu um verkbann.

2.6. Félagsmönnum er óheimilt að taka þátt í kjaraviðræðum eða gera kjarasamninga við stéttarfélög nema fyrir liggi samþykki stjórnar SAFL og SA.

3. Úrsögn og brottvikning:

3.1. Heimilt er félagsmanni að segja sig úr samtökunum með minnst sex mánaða fyrirvara. Úrsögn skal vera skrifleg, undirrituð af meirihluta stjórnar viðkomandi félagsmanns og afhendast framkvæmdastjóra samtakanna sem skal staðfesta móttöku hennar. Þó er óheimilt að segja sig úr eða fara úr samtökunum á meðan á vinnudeilu stendur. Úrsögn eða brottvikning leysir aðila ekki undan greiðslu félagsgjalda eða annarra skuldbindinga sem á honum kunna að hvíla.

3.2. Stjórn samtakanna er heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu vegna vanskila, brota gegn samþykktum þessum eða ef félagsmaður vinnur gegn hagsmunum þess. Stjórn samtakanna er heimilt að fjarlægja af félagsskrá, án sérstaks fyrirvara, þá félagsmenn sem ekki hafa greitt árgjöld sín til samtakanna í tvö ár eða lengur, hætt starfsemi af einhverjum ástæðum eða starfa ekki lengur í landbúnaði.

4. Félagsgjöld:

4.1. Almennt félagsgjald til SAFL reiknast að hámarki sem 0,15% af veltu liðins árs. Stjórn SAFL er heimilt að ákveða að innheimta lægra almennt félagsgjald. Stjórn SAFL ákvarða hámarks- og lágmarksárgjald fyrir hvert ár. Stjórnin getur einnig sett reglur um hámarkshlutfall félagsgjalda af launakostnaði félagsaðila á liðnu ári.

4.2. Félagsaðilum er skylt, óski SAFL þess, að senda þeim nauðsynlegar upplýsingar úr ársreikningum sínum þ.m.t. um veltu og launagreiðslur, vegna álagningar félagsgjalda. Heimilt er að áætla félagsgjald á félagsaðila sem ekki gefur nauðsynlegar upplýsingar til grundvallar álagningu. SAFL er heimilt að afla upplýsinga um rekstur félagsaðila í þessu skyni frá opinberum aðilum, enda sé farið með þær upplýsingar sem trúnaðarmál.

4.3. Félagsgjöldum ársins skal skipta í jafnar greiðslur samkvæmt ákvörðun stjórnar, mest tólf greiðslur en minnst fjórar greiðslur. Greiðslur er heimilt að miða við áætlun sem síðan leiðréttist á síðasta reikningi ársins, eða þegar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir.

4.4. Nýir félagsmenn greiða félagsgjald frá og með þeim ársfjórðungi sem er að líða þegar þeir eru samþykktir í samtökin. Þeir sem segja sig úr samtökunum greiða félagsgjald út sex mánaða uppsagnarfrest, en hætti félagsmaður starfsemi á árinu greiðir hann félagsgjald til loka þess ársfjórðungs, sem stjórn samtakanna er tilkynnt að félagsmaður sé hættur störfum. Þegar brottvikning félagsmanns á sér stað skal greiða félagsgjald til loka þess ársfjórðungs sem brottvikning fór fram.

4.5. Auk framangreindra félagsgjalda innheimtist félagsgjald til SA og SI í samræmi við reglur þeirra og samninga þar um milli samtakanna. Stjórn skal ákveða annars konar fyrirkomulag við ákvörðun og innheimtu félagsgjalda samkvæmt gr. 4.1. - 4.4., á meðan samningur um aðild SAFL að SI og SA liggur fyrir.

5. Aðalfundur:

5.1. Aðalfund skal halda fyrir lok maí mánaðar ár hvert eftir nánari ákvörðun stjórnar.

5.2. Til aðalfundar skal boða með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Fundarboð skal sent félagsmönnum með tilskildum fyrirvara. Heimilt er að boða til fundar;    1) með tölvupósti gegn staðfestingu um móttöku eða 2) með ábyrgðarbréfi eða 3) með auglýsingu í dagblöðum og útvarpi eða 4) með öðrum sannanlegum hætti. Einnig skal ávallt boða fundinn með auglýsingu á heimasíðu samtakanna. Í fundarboði skal getið helstu mála, sem taka á fyrir á fundinum.

5.3. Heimilt er að halda aðalfundi og félagsfundi samtakanna annars staðar en á heimili samtakanna. Stjórn er jafnframt heimilt að ákveða að fundur verði aðeins haldinn rafrænt.

5.4. Kjörnefnd skal sjá um framkvæmd kosninga á aðalfundi, en stjórn samtakanna skal kjósa þrjá menn í kjörnefnd. Kjörnefnd skal með áskorun til félagsmanna leita eftir tillögum um menn til setu í stjórn samtakanna fyrir komandi kjörtímabil, þ.m.t. tillögur um framboð til formanns og varaformanns og fulltrúa félagsmanna í stjórn úr eftirfarandi atvinnugreinum:

  • a) Félagsmenn sem starfa við framleiðslu á rauðu kjöti, þ.e. einkum afurðum nautgripa, sauðfjár og hrossa.
  • b) Félagsmenn sem starfa við framleiðslu á hvítu kjöti, þ.e. einkum afurðum svína, kjúklinga, og alifugla.
  • c) Félagsmenn sem starfa við framleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum.
  • d) Félagsmenn sem starfa við framleiðslu á grænmeti.
  • e) Félagsmenn sem starfa við framleiðslu á fóðri.

Ofangreindar atvinnugreinar skulu hver fyrir sig eiga einn fulltrúa í stjórn eða samtals fimm. Komi fram tillögur eða framboð um fleiri en einn stjórnarmann í flokki a - e skal kosið á milli þeirra. Sama gildir um formann og varaformann.

5.5. Kjörnefnd skal leggja fram tillögur um framboð til kjörs formanns, stjórnar og til annarra trúnaðarstarfa viku fyrir aðalfund. Félagsmanni er heimilt að bjóða sig fram með tilkynningu um framboð til kjörnefndar viku fyrir aðalfund. Félagsmaður skal tilgreina hvort hann bjóði sig fram til formanns, varaformanns eða sem fulltrúi tiltekinna atvinnugreina, sbr. grein 5.4. Komi fram framboð eða tillögur um fleiri menn en kjósa á skal kjörstjórn útbúa atkvæðaseðil með nöfnum frambjóðenda sem kosið skal um á aðalfundi.

5.6. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og að félagsmenn séu mættir sem ráða yfir að minnsta kosti 2/3 hluta heildaratkvæða. Ef ekki mæta svo margir, að fundur sé lögmætur, skal boða til aðalfundar að nýju með eigi skemmri en viku fyrirvara, og er þá fundur lögmætur án tillits til fundarsóknar.

5.7. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál í þeirri röð sem stjórn eða fundarstjóri ákveður:

  • a) Formaður samtakanna setur fundinn og stjórnar kosningu fundarstjóra.
  • b) Fundarstjóri skipar fundarritara og úrskurðar um lögmæti fundarins.
  • c) Formaður samtakanna flytur skýrslu stjórnar.
  • d) Framkvæmdastjóri leggur fram og skýrir endurskoðaða reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár.
  • e) Umræður og afgreiðsla mála, þar á meðal ákvörðun félagsgjalda.
  • f) Kosning formanns.
  • g) Kosning stjórnar.
  • h) Kosinn löggiltur endurskoðandi til eins árs.
  • i) Tillögur um breytingar á samþykktum samtakanna.
  • j) Önnur mál, sem löglega eru fram borin.

5.8. Um aðalfund fer að öðru leyti eftir 7. kafla um félagsfundi.

6. Stjórn og framkvæmdastjóri:

6.1. Stjórn samtakanna er skipuð 7 mönnum. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega á aðalfundi til eins árs í senn. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til eins árs í senn sbr. grein 5.4. Á aðalfundi eru þannig kosnir formaður, varaformaður og 5 stjórnarmenn eða alls 7. Kjörgengir til setu í stjórn samtakanna eru lykilstjórnendur og stjórnarmenn aðildarfyrirtækja SAFL.

6.2. Stjórn samtakanna mótar stefnu og megináherslur þeirra. Stjórnin heldur fundi eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári eða oftar ef formanni þykir þess þurfa eða ef minnst tveir stjórnarmenn óska þess. Samþykki meirihluta stjórnar skuldbindur félagið. Gangi maður úr stjórn getur stjórnin með einróma samþykki kjörið annan mann í hans stað til næsta aðalfundar.

6.3. Stjórnarfundur er aðeins lögmætur að minnst 5 stjórnarmenn sæki fundinn. Framkvæmdastjóri hefur rétt til setu á fundum stjórnar með málfrelsi og tillögurétt. Fundargerðir stjórnarfunda skal bóka í sérstaka fundargerðabók. Stjórnin skal tilnefna formann SAFL og aðra fulltrúa SAFL í stjórn SA og fulltrúaráð SA.

6.4. Stjórn ræður framkvæmdastjóra samtakanna og setur honum starfsreglur. Framkvæmdastjóri er ábyrgur fyrir daglegri starfsemi samtakanna og hefur prókúru fyrir samtökin.

6.5. Stjórn samtakanna er heimilt að stofna faghópa sem vinna að afmörkuðum verkefnum, eftir því sem þörf er á hverju sinni.

7. Félagsfundir:

7.1. Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málum samtakanna innan þeirra marka, sem samþykktir þessar setja. Rétt til að sækja félagsfundi og fara með atkvæði þar hafa félagsmenn eða umboðsmenn þeirra. Heimild til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétt hafa starfsmenn samtakanna.

7.2. Félagsfundi skal halda þegar stjórn samtakanna þykir þurfa eða þegar þess er krafist fyrir hönd félagsmanna, sem hafa umráð yfir minnst 1/5 hluta af atkvæðum félagsmanna, enda komi jafnframt fram hvers vegna fundar er krafist. Kröfu um félagsfund skal senda stjórn samtakanna og ber stjórninni að boða til fundarins eins fljótt og auðið er.

7.3. Félagsfundi skal boða með tilkynningu til félagsmanna með minnst einnar viku fyrirvara, með sama hætti og greinir í gr. 5.2., nema vinnustöðvun sé yfirvofandi eða aðrar jafnbrýnar ástæður réttlæti að boðað sé til fundar með skemmri fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega getið þeirra mála, sem taka skal fyrir á fundinum.

7.4. Heimilt er þó á fundi að taka fyrir og leiða til lykta málefni, sem eigi er getið í fundarboði, nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum þessum, enda sé það samþykkt með 3/4 hlutum greiddra atkvæða fundarmanna.

7.5. Félagsfundur, sem boðað hefur verið til með löglegum hætti, er lögmætur, án tillits til þess hve margir sækja hann.

7.6. Hverjum fundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Fundarstjóri gerir tillögu um fundarritara. Atkvæðagreiðsla skal jafnan vera skrifleg ef einhver atkvæðisbærra fundarmanna krefst þess.

7.7. Heimilt er að viðhafa atkvæðagreiðslur með rafrænum hætti við kosningar á aðalfundi, félagsfundi eða þegar það þykir henta að öðru leyti.

7.8. Á aðalfundum og félagsfundum hafa félagsmenn atkvæðisrétt sem hér segir: Leggja skal til grundvallar fyrir atkvæðatölu hvers einstaks félagsmanns heildarupphæð greiddra félagsgjalda fyrir undanfarið ár og skal vera eitt atkvæði fyrir hverjar heilar 10.000.- kr. -tíuþúsundkrónur-.

7.9. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í öllum málum, nema annað sé ákveðið í þessum samþykktum.

7.10. Félagsmaður sem er forfallaður frá fundarsókn, getur falið öðrum félagsmanni að fara með sinn atkvæðisrétt með skriflegu umboði, sem skal afhent fundarstjóra. Engin takmörk eru á því að hvað hver og einn umboðsmaður getur farið með atkvæðisrétt fyrir.

7.11. Skrifstofa samtakanna skal við hver áramót semja skýrslu yfir atkvæðamagn hvers félagsmanns og gildir skýrslan frá 15. febrúar ár hvert. Nú hefur félagsmaður ekki verið í samtökunum í heilt ár, þegar skýrslan um atkvæðamagn er gerð, skal honum þá ákveðið atkvæðamagn í samræmi við lágmarksgjald, eins og það er á hverjum tíma ákveðið af stjórn félagsins, þar til greidd félagsgjöld hans á árinu nema hærri fjárhæð.

8. Ársreikningar:

8.1. Starfsár samtakanna og reikningsár er almanaksárið. Á aðalfundi skal kosinn endurskoðandi og skal hann vera löggiltur endurskoðandi. Hann skal endurskoða reikninga samtakanna fyrir næstliðið ár, kanna sjóði þess í árslok og skila að loknum störfum sínum endurskoðunarskýrslu til stjórnar samtakanna.

8.2. Fyrir lok marsmánaðar ár hvert skal skrifstofa samtakanna hafa lokið við ársreikninginn fyrir liðið starfsár og sent hann endurskoðendum.

9. Önnur ákvæði:

9.1. Samþykktum samtakanna má ekki breyta nema á aðalfundi eða á félagsfundi, sem boðaður hefur verið með minnst tveggja vikna fyrirvara og sóttur er af félagmönnum sem hafa umráð yfir 2/3 hluta heildaratkvæða, sbr. 7.8, enda hafi þess verið getið í fundarboðinu að breyting á samþykktum yrði til meðferðar á fundinum og sé breytingin samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða að minnsta kosti. Tillögur um breytingar á samþykktum skulu liggja fyrir eigi síðar en viku fyrir fund.

9.2. Hafi eigi verið á fundinum svo margir, en breytingin verið samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða að minnsta kosti, þá skal halda aftur fund innan tveggja mánaða. Skal til hans boðað á sama hátt og hins fyrri og það tekið fram að til fundar sé boðað sökum þess að eigi hafi verið nógu margir á hinum fyrri. Séu síðan á þeim fundi greidd 2/3 atkvæða með breytingunni þá telst hún samþykkt, án tillits til fundarsóknar.

9.3. Þyki rétt og nauðsynlegt að leggja samtökin niður eða slíta þeim með samruna við önnur samtök, fer um tillögur þar að lútandi eins og um breytingar á samþykktum, sbr. 9.1. Fundur sá sem samþykkir löglega að leggja félagið niður, kveður einnig á um ráðstöfun eigna þess og skulda.

Þannig samþykkt á aðalfundi 15. maí 2024.