Þann 2. febrúar sl. birtist í Morgunblaðinu grein eftir Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, undir yfirskriftinni „Um samkeppnisreglur og landbúnað“. Í greininni fjallar forstjórinn um atriði er varða frumvarp matvælaráðherra um undanþágur frá samkeppnislögum til handa afurðastöðvum í kjötiðnaði. Umrætt frumvarp verður ekki lagt fram á Alþingi þótt það hafi verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Ein ástæða þess, að mati greinarhöfundar, er umsögn Samkeppniseftirlitsins. Áður en forstjórinn hefur umfjöllun sína tiltekur hann að efni greinarinnar sé sett fram „í þágu upplýstrar umræðu“. Því fer hins vegar fjarri eins og hér verður nánar rakið.
Undanþágur ganga ekki lengra en erlendis
Í grein sinni tiltekur forstjórinn að í Noregi og innan ESB snúi undanþágur frá almennum samkeppnisreglum að bændum og afurðastöðvum sem eru í eigu bænda. Meginmarkmiðið sé þannig að bæta samningsstöðu bænda og gera þeim kleift að stýra hagsmunum sínum. Er svo fullyrt að undanþágan í frumvarpi ráðherra hafi gengið lengra.
Það er rétt að í Noregi er gerð krafa um að afurðastöðvar séu að fullu í eigu bænda. En í Noregi eru afurðastöðvar ekki einungis undanþegnar ólögmætu samráði skv. 10. gr. norsku samkeppnislaganna, heldur ennfremur undanþegnar 11. gr. norsku samkeppnislaganna – m.ö.o. afurðastöðvar geta misnotað markaðsráðandi stöðu sína ef það er gert til að framkvæma norska landbúnaðarstefnu. Þannig eru reglur um eignarhald vissulega strangari í Noregi en á móti koma umtalsvert meiri heimildir en fólust í frumvarpi ráðherra.
Af þessu leiðir að unnt er að útfæra undanþágur eftir aðstæðum í hverju landi fyrir sig. Er það gert t.d. í Svíþjóð og Finnlandi þar sem ekki er gerð ófrávíkjanleg krafa um að afurðastöðvar séu að fullu eða meirihluta í eigu bænda, heldur er það nægjanlegt að afurðastöðvar séu undir stjórn bænda.
Íslensk lög girða fyrir hagræðingu í landbúnaði
Í grein sinni segir forstjórinn að núgildandi samkeppnislög girði ekki fyrir hagræðingu í landbúnaði og er vísað til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins vegna samruna Kjarnafæðis, Norðlenska og SAH. Þetta er einstaklega efnislítill og veikur málflutningur, svo vægt sé til orða tekið.
Hér vísar forstjórinn til 15. gr. samkeppnislaga en ákvæðið tiltekur m.a. að bannákvæði samkeppnislaga gildi ekki ef samningar eða ákvarðanir fyrirtækja stuðla að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu, veitir neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi og leggur ekki óþörf höft á hlutaðeigandi fyrirtæki til að settum markmiðum verði náð.
Sú sviðsmynd sem hér blasir við er eftirfarandi: Í öllum samkeppnislögum þeirra þjóða sem Ísland ber sig iðulega saman við er að finna ákvæði sambærilegt 15. gr. íslensku samkeppnislaganna. Samt sem áður lýsir forstjóri Samkeppniseftirlitsins því yfir að Ísland, eitt landa, eigi ekki að setja sér undanþágur frá samkeppnislögum fyrir bændur og fyrirtæki þeirra.
Við þetta rís spurning sem er í eðli sínu pólitísk: Ef unnt er að samþykkja undanþágureglur frá samkeppnislögum fyrir landbúnað í Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Þýskalandi, til viðbótar við undanþágu í ESB-rétti, af hverju er ekki hægt að samþykkja undanþágur frá samkeppnislögum fyrir landbúnað á Íslandi?
Rangur skilningur á hagsmunum bænda
Næsta atriði í grein forstjórans lýtur að hagsmunum bænda og má skipta í tvo hluta – fyrri hlutinn byggir á þeirri forsendu að hagsmunir bænda og afurðastöðva fari ekki saman en seinni hlutinn vísar til viðhorfs bænda til samningsstöðu sinnar við núverandi aðstæður.
Óskiljanleg er sú fullyrðing forstjórans að hagsmunir bænda og afurðastöðva fari ekki saman í þessu máli. Þannig er hún í ósamræmi við yfirlýsingar Bændasamtaka Íslands og forsvarsmanna afurðastöðva um hagsmuni þessara aðila. Augljóst er að bændur og afurðastöðvar bindast nánum og í raun órjúfanlegum böndum. Afurðastöðvar eru algerlega háðar bændum varðandi gripi til slátrunar og bændur eru háðir afurðastöðvum því þær eru langstærstu kaupendur afurða bænda. Báðir þessir hópar eru undir miklum þrýstingi vegna erfiðra rekstrarskilyrða. Annars vegar eru bændur háðir greiðslum frá ríkisvaldinu á grundvelli búvörusamninga en umræddar greiðslur hafa lækkað á gildistíma núgildandi samninga. Hins vegar er tækjabúnaður afurðastöðva orðinn úreltur og hefur rekstur þeirra verið svo erfiður á undanförnum árum að reksturinn stendur ekki undir fjárfestingu og endurnýjun. Samandregið hefur þetta leitt til fækkunar bænda og afurðastöðva líkt og þekkt er. Þetta er ástæða þess af hverju forsvarsmenn bænda og afurðastöðva hafa í mörg undanfarin ár farið fram á samstarfsheimildir til að ná hagræðingu í landbúnaði. Samkeppniseftirlitið hefur ekki sýnt þessum áhyggjum skilning.
Í grein forstjórans er vísað til viðhorfskönnunar sem Samkeppniseftirlitið lét framkvæma í tengslum við samruna Kjarnafæðis, Norðlenska og SAH og leitt að því líkur að bændur vilji ekki undanþágu frá samkeppnislögum í ljósi mats þeirra á samningsstöðu sinni. Með þessu er skautað framhjá Bændasamtökum Íslands sem hafa, ásamt Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, bent á að hagræða þurfi í kjötiðnaði, einmitt til þess að skapa svigrúm til að vænka hag bæði bænda og neytenda. Þá liggja fyrir ályktanir á aðalfundum Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssambands kúabænda um sama efni. Þá er rétt að benda á misvísandi framsetningu forstjórans varðandi svarhlutfall í tilvísaðri „viðhorfskönnun“. Svarhlutfall í könnuninni var einungis 25%; einungis 874 bændur af 3.483 svöruðu. Í upplýsingum um framkvæmd könnunarinnar kom reyndar fram að færri þátttakendur hafi svarað þannig að raunverulegt svarhlutfall var því 22,7%. Umrædd viðhorfskönnun er því ónothæf en engu að síður vísar forstjórinn til hennar um afstöðu bænda fremur en að líta til yfirlýsts vilja Bændasamtaka Íslands, Landssambands sauðfjárbænda og Landssambands kúabænda.
Niðurlag Samkeppniseftirlits
Í niðurlagi greinar sinnar hnykkir forstjórinn á þeirri afstöðu að með umsögn sinni hafi eftirlitið sinnt „því lögbundna hlutverki sínu“ að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til að gera samkeppni virkari.
Af umsögn Samkeppniseftirlitsins er ljóst að stofnunin gekk of langt. Nægir að vísa til þess að umsögn eftirlitsins, ásamt viðauka, telur samtals 56 blaðsíður. Þar er m.a. komið inn á fæðuöryggi, byggðastefnu og fleira sem er Samkeppniseftirlitinu óviðkomandi. Til samanburðar má vísa til umsagnar norska samkeppniseftirlitsins þegar núgildandi undanþága norskra laga frá samkeppnisreglum var samþykkt. Umsögn norska samkeppniseftirlitsins var tæplega tvær blaðsíður að lengd og í fréttatilkynningu, sem fylgdi umsögninni, sagði eftirfarandi í lauslegri þýðingu: „Eftirlitið er ánægt með frumvarpið en telur að skýra beri hluta þess.“ Svo mörg voru þau orð. Er lögbundið hlutverk norska samkeppniseftirlitsins annað en lögbundið hlutverk íslenska samkeppniseftirlitsins?
Höfundur er: Sigurjón Rúnar Rafnsson, formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. febrúar 2023