'}}
Í upphafi skyldi endinn skoða

Þann 26. janúar sl. beindi Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, fyrirspurn á Alþingi til matvælaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum um „samkeppni á matvælamarkaði“. Í fyrirspurn þingmannsins komu m.a. fram tvær fullyrðingar um innlenda matvælaframleiðslu sem óhjákvæmilegt er að rýna frekar.

Útboð á tollkvótum

Fyrri fullyrðing þingmannsins var svohljóðandi: „Það er ekki bara þessi verðvernd, sem er í gangi í boði stjórnvalda, sem hindrar þau vegna þess að það eru líka dæmi um að innlendir kjöt- og mjólkurvöruframleiðendur bjóði hátt verð í kvótana, kaupi þá og flytji viðkomandi vöru ekki inn.“

Í fyrirspurn sinni nafngreinir þingmaðurinn ekki þá kjöt- og mjólkurvöruframleiðendur sem eru bornir þessum ásökunum. Ekki er ólíklegt að málshefjandi hafi meðal annars byggt á frétt sem birtist í Fréttablaðinu þann 10. janúar sl. þess efnis að Samkeppniseftirlitið hefði tekið fyrirkomulag úthlutunar tollkvóta til skoðunar, þar sem ávirðingar sama efnis voru bornar fram og tiltekið að eftirlitið hafi sent Matvælaráðuneytinu bréf vegna þessa.

Úthlutun tollkvóta byggist á núgildandi búvörulögum og tollalögum. Undanfari úthlutunar er útboð á tollkvótunum sem fer fram samkvæmt reglugerð hverju sinni. Þátttakendur í þessum útboðum hafa verið fjölmargir. Þar á meðal félagar í Félagi atvinnurekenda, sem sendi kvörtun til Samkeppniseftirlitsins og fyrrnefnd skoðun þeirra síðarnefndu byggist á, auk nokkurra afurðastöðva í mjólkur- og kjötiðnaði. Hvergi hefur komið fram að brotið hafi verið gegn ákvæðum búvörulaga eða tollalaga við útboð tollkvóta eða grunur sé um slíkt. Að bera á borð fullyrðingar sem virðast að einhverju leyti hafðar eftir „orðinu á götunni“ eins og þingmaðurinn gerir er því sérstakt.

Ekkert stjórnvald hefur opinberlega fært fram gögn sem sanna að einhver fyrirtæki starfi með þeim hætti sem þingmaðurinn hélt fram í ræðu sinni á Alþingi. Það verður að teljast sérstakt að hún sjái sig knúna til að fara fram með svo óvönduðum málflutningi til þess eins að því er virðist að sýna stuðning við hugmyndir um að útiloka íslensk framleiðslufyrirtæki frá þátttöku í útboði tollkvóta þannig að afmarkaður hópur fyrirtækja sitji einn að þeim takmörkuðu gæðum sem tollkvótar eru.

Afnám tolla

Seinni fullyrðing þingmannsins var svohljóðandi: „Ég veit, og það hefur komið fram í fréttum, að ákveðin stéttarfélög hafa gert bókanir við kjarasamninga sína þar sem óskað er eftir því að stjórnvöld fari í vinnu við að afnema og lækka tolla í þágu neytenda, í þágu heimila. Það er ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag heimila. Að mati þessara aðila sem hafa bókað væri góð byrjun að afnema tolla sem vernda enga hefðbundna innlenda landbúnaðarframleiðslu.“ Jafnvel ESB sem þingmaðurinn vísar títt til sem fyrirmyndar, myndi ekki haga sinni viðskiptastefnu með þessum hætti. Tolla ætti aldrei að afnema einhliða í samskiptum ríkja. Af hverju ekki? Vegna þess að viðskiptasamningar byggjast á gagnkvæmni – eitt ríki lækkar sína tolla gegn því að annað ríki lækki sína tolla í staðinn.

Til upprifjunar má nefna að þegar tollasamningur var gerður við ESB árið 2007 var samið um ýmsar ívilnanir og tollalækkanir fyrir landbúnaðarvörur. Þá stóð samninganefnd Íslands frammi fyrir því að tollar höfðu áður verið afnumdir einhliða, m.a. á tómötum og gúrkum. Þarna var því ekkert „til að selja“ í samningaviðræðunum. Niðurstaðan var sú að taka aftur upp tolla á þessar vörur gagnvart ýmsum viðskiptalöndum en tollfrelsi myndi ríkja áfram í viðskiptum við lönd innan ESB. Þessi litla saga ætti að vera nokkur lexía í þessum málum.

Höfundur er Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. janúar 2023