Nú er ljóst að frumvarp um breytingar á búvörulögum, sem fól í sér heimild til handa afurðastöðvum í sláturiðnaði til að stofna og starfrækja félag um flutning sláturgripa, slátrun, birgðahald og frumvinnslu afurða auk skyldra verkefna, verður ekki lagt fram á vorþingi 2023 líkt og til stóð. Þess í stað hefur matvælaráðherra tilkynnt að málið verði unnið áfram í ráðuneyti hennar og stefnt er að því að leggja fram nýtt frumvarp á haustþingi. Það eru mikil vonbrigði að ráðherra hafi ekki farið fram með frumvarpið nú og málinu þar með enn og aftur slegið á frest.
Aðstöðumunurinn liggur ljós fyrir
Undanþága afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnisreglum hefur verið til umræðu hérlendis nú um nokkurt skeið eða frá því haustið 2020, þegar lagastofnun HÍ birti skýrslu sem sýndi ljóst að íslenskir bændur og fyrirtæki þeirra hafa búið við strangari samkeppnislöggjöf heldur en bændur og fyrirtæki þeirra í Noregi og innan ESB.
Síðan þá hefur verkefnastjórn um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland, Ræktum Ísland, bent á þennan aðstöðumun og lagt áherslu á að við mótun landbúnaðarstefnu eða starfsumhverfis landbúnaðarins skuli horfa til þess „…hvaða reglur gilda um starfsemi bænda og afurðastöðva í nágrannalöndum okkar og skapa aðilum hér ekki lakari skilyrði til rekstrar og hagræðingar en þar gilda, eftir því sem landfræðilegar aðstæður leyfa.“ Þá lagði Spretthópur matvælaráðherra til að veitt yrði heimild til handa sláturleyfishöfum og frumvinnslu afurðastöðva í kjötvinnslu til samstarfs um sameiningu eininga, samninga sín í millum og verkaskiptingu.
Ísland eitt landa án undanþága frá samkeppnislögum
Noregur og lönd innan ESB hafa haft víðtækar undanþágur frá samkeppnisreglum í tugi ára. Í allri umræðu stóru ríkjanna í Evrópu um eitt efnahagssvæði, á fyrstu árunum eftir seinni heimstyrjöldina, og síðar um aðlögun annarra ríkja að ríkjasambandinu, hefur sérstaða landbúnaðarins gagnkvæmt samkeppnisreglum verið leiðarljósið.
Sannast það best í sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB (Common Agricultural Policy, CAP) þar sem fjallað er um víðtækar undanþágur frá samkeppnislöggjöfinni til handa landbúnaðinum. Þar er tiltekið að samkeppnisreglur ESB skuli víkja fyrir CAP ef árekstrar verða. Því til viðbótar eru einstök ríki með undanþáguákvæði í sinni löggjöf og má þar nefna Svíþjóð, Finnland og Þýskaland sem dæmi. Þannig er t.d. í finnskum rétti ekki gerð krafa um að afurðastöðvar séu í fullri eigu bænda svo þær falli undir undanþágur frá samkeppnislögum, heldur er einungis gerð krafa um að félagsaðilar í afurðastöð geti haft áhrif á stjórn afurðastöðvarinnar, t.d. á félagsfundum.
Í Noregi var landbúnaðinum veitt undanþága frá samkeppnislögum árið 1993 og undanþágunni síðar breytt árið 2004. Þar er gengið mun lengra en frumvarpsdrög matvælaráðherra gerðu – þar er t.d. fyrirtækjum í landbúnaði heimilt að gera hvers kyns samninga, t.d. að festa verð og magn og misnota markaðsráðandi stöðu. Markaðshegðun þarf að vera í samræmi við lög, reglugerðir eða árlegan samning milli bændasamtakanna og stjórnvalda. Undanþágan er þó takmörkuð þar sem samkeppnishamlandi aðgerðir verða að vera í samræmi við landbúnaðarstefnu eða landbúnaðarreglur. Markmið þessara undanþágna er að bæta og koma á stöðugleika í afkomu bænda.
30 ára þrautaganga
Þegar umgjörð landbúnaðarins er skoðuð í þeim löndum sem við berum okkur iðulega saman við er ljóst að stórkostleg mistök hafa átt sér stað við innleiðingu samkeppnislaga árið 1993, en ekkert tillit var þá tekið til sérstakrar stöðu landbúnaðarins hérlendis, líkt og gert var t.d. í Noregi. Því má segja að íslenskar kjötafurðastöðvar séu 30 árum á eftir kollegum sínum í löndunum í kringum okkur. Þessi mistök og þennan aðstöðumun er nauðsynlegt að rétta ef íslenskur landbúnaður á að geta vaxið og orðið burðug atvinnugrein.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2023
Höfundur er Sigurjón R. Rafnsson, formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði