'}}
Útboð á tollkvótum frá Evrópusambandinu

Þann 1. desember sl. birti Matvælaráðuneytið niðurstöður útboða á tollkvótum frá Evrópusambandinu. Sú breyting hefur orðið að árinu er nú aftur skipt í tvö sex mánaða tímabil, líkt og tíðkaðist til ársins 2021, og var hér um að ræða niðurstöður útboðs fyrir tímabilið janúar til júní 2023. Síðastliðin tvö ár hefur árinu hins vegar verið skipt í þrjú fjögurra mánaða tímabil.

Fram hafa komið fullyrðingar um að hækkanir á útboðsgjaldinu nú séu svo miklar að tala megi um „stökkbreytingu“. Slík orð þarfnast nánari skoðunar enda ljóst að þau standast varla ef verðþróun er skoðuð heildstætt. Í sögulegu samhengi eru verð á tollkvótum nú svipuð og þau voru á árinu 2019 fyrir flestar tegundir að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.

Verð nú sambærileg og árið 2019

Þannig reyndist verð fyrir tollkvóta í osti nú kr. 840 kr/kg. Árið 2019 var verð fyrir osta tollkvóta tímabilið júlí - desember, framreiknað með vísitölu neysluverðs, 890 kr/kg og á fyrri hluta ársins 2019 var verðið 926 kr/kg (notast var við meðalvísitölu ársins 2019 í báðum tilvikum sem vitaskuld vanmetur verðlagshækkun á fyrri hluta ársins).   Sambærilegar tölur fyrir nautgripakjöt voru 682,4 kr/kg tímabilið júlí til desember 2019 og 954,2 kr/kg fyrir tímabilið janúar til júní. Niðurstaða útboðsins nú reyndist 690 kr/kg.

Tollkvótar lækkað í verði frá gildistöku tollasamnings við Evrópusambandið

Sé hins vegar litið til verðþróunar tollkvóta frá því samningur við Evrópusambandið tók gildi um mitt ár 2018 má sjá að verð hefur lækkað töluvert fyrir margar tegundir frá þeim tíma, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Þannig hefur verð fyrir tollkvóta í osti lækkað um 14%, fyrir nautgripakjöt um 28% og alifuglakjöt um 15% svo dæmi séu tekin.

Ástæður þess að verð fyrir tollkvóta lækkaði (miðað við fast verðlag) á árunum 2020 – 2021 koma einnig til skoðunar. Vera má t.d. að það megi rekja til þess að þá geisaði hér heimsfaraldur með tilheyrandi fækkun í komum ferðamanna til landsins. Því hafi eftirspurn eftir tollkvótum einfaldlega verið minni þá. Yfirstandandi ár hefur síðan litast af áhrifum innrásar Rússa í Úkraínu á framboð og framleiðslukostnað matvæla í heiminum. Það kann því að vera að þegar upp er staðið séu það margir samverkandi þættir sem hafa áhrif á útboðsgjald fyrir tollkvóta.

Að framansögðu er ljóst að öll gífuryrði um stökkbreytingu á útboðsgjaldinu eiga ekki við nein rök að styðjast. Fullyrðingar framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda um að innlendir framleiðendur fari hér fram með aðferðum sem sé ætlað að hindra samkeppni við eigin vörur og stjórna vöruverði í þessu samhengi eru alvarlegar og dæma sig sjálfar.