'}}
Gengið lengra en hjá ESB

Íslensk stjórnvöld ganga lengra en Evrópusambandið við tímabundna niðurfellingu tolla á vörum frá Úkraínu. Þetta kemur fram í umsögn SAFL við frumvarpi fjármálaráðherra um niðurfellingu tolla á vörur sem upprunnar eru í Úkraínu og lagt var fram á Alþingi fimmtudaginn 9. júní sl.

Þar ber sérstaklega að nefna að í reglugerð ESB má finna varúðarreglu sem í felst að ef vara, sem flutt er frá Úkraínu á grundvelli tollaniðurfellingarinnar, veldur eða er til þess fallin að valda framleiðendum í ESB tjóni, þá er heimilt að afturkalla niðurfellingu tollanna hvenær sem er og ákvarða tolla á vörur frá Úkraínu þannig að þeir verði jafnháir og þeir voru samkvæmt samningi ESB og Úkraínu frá 2014. Engin sambærileg regla er til staðar í frumvarpinu sem lagt var fram hérlendis. Þannig hafa íslensk stjórnvöld ekkert svigrúm til að grípa til aðgerða og verja innlenda framleiðslu ef vörur frá Úkraínu valda innlendum framleiðendum landbúnaðarvara tjóni.

Auk þess takmarkast niðurfellingin hjá ESB við tolla eins og þeir voru skilgreindir í sérstökum samningi milli ESB og Úkraínu frá 27. júní 2014 en telja samtökin ástæðu til að skoða nánar hvort þar sé um að ræða alla tolla í tollskrá ESB. Þá hefur ESB sett fram ákveðin skilyrði fyrir niðurfellingu tolla en þau eru að (a)upprunareglur samnings ESB og Úkraínu frá 2014 séu virtar; (b) Úkraína innleiði ekki nýja tolla eða álögur á vörur frá ESB eða tolla og álögur sem hafa sambærileg áhrif og (c) Úkraína virði lýðræðislegar meginreglur, mannréttindi, grundvallarfrelsi og reglur um réttarríki. Ekki er vikið að þessum atriðum í frumvarpi fjármálaráðherra að upprunareglum undanskildum.