'}}
Aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu gefin út

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur gefið út aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu til fimm ára.

Til grundvallar áætluninni liggur landbúnaðarstefna til 2040 sem samþykkt var á Alþingi í júní árið 2023. Stefnan inniheldur framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað sem tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni. Þetta kemur fram í frétt á vef matvælaráðuneytisins.

Áætluninni er ætlað að ná yfir þau verkefni landbúnaðarstefnunnar sem eru á forræði matvælaráðuneytisins og verða í forgangi á tímabilinu. Tekið er fram í fréttinni að aðgerðirnar eru ekki settar fram í forgangsröðun heldur er uppröðun aðgerðanna í samræmi við uppbyggingu landbúnaðarstefnunnar sjálfrar.

Drög að aðgerðaáætluninni voru í opnu samráði á samráðsgátt stjórnvalda frá 29. febrúar til 2. apríl 2024. Hér má lesa umsögn SAFL. Alls bárust 15 umsagnir auk breytingatillagna sem, samkvæmt frétt á vef matvælaráðuneytisins, tekið var tillit til eins og kostur var og ennfremur bætt við tillögum að samstarfsaðilum í samræmi við ábendingar.

„Það er skiptir sköpum fyrir matvælaþjóð eins og Íslendinga að hafa skýra stefnu í landbúnaðarmálum“ sagði matvælaráðherra í tilefni af útgáfu skýrslunnar. „Við viljum sjá innlendan landbúnað vaxa og dafna, þessi aðgerðaáætlun er mikilvæg varða á þeirri leið“.

Áætlunina má nálgast hér.