Ný undanþága frá samkeppnislögum fyrir landbúnaðinn í ESB

Nýlega var á alþingi gerð breyting á búvörulögum þar sem íslenskar afurðastöðvar í kjötiðnaði fengu loks undanþágu frá samkeppnislögum, líkt og hefur þekkst í nágrannalöndum okkar í áratugi. Í kjölfar samþykktar laganna hófst mikið fjölmiðlafár þar sem umræðan einkenndist af stóryrðum. Var af mörgum talið með öllu ótækt að samþykkt yrði undanþága frá samkeppnislögum fyrir landbúnaðinn hér á landi, þrátt fyrir þá staðreynd að Ísland – eitt landa Evrópu – væri þá áfram án slíkra undanþágureglna.

Líkt og Samtök fyrirtækja í landbúnaði hafa bent á alllengi þá eru fjölmörg fordæmi til staðar í rétti annarra þjóða fyrir undanþágum fyrir landbúnað frá samkeppnislögum. Nýjasta dæmið er ný viðbótar undanþága fyrir landbúnað frá samkeppnisreglum ESB sem samþykkt var af hálfu ríkjabandalagsins í desember 2023. 

ESB bætir við nýrri undanþágu

Um áratugaskeið hafa gilt undanþágur fyrir landbúnaðinn frá samkeppnisreglum ESB. Ástæðu þess má rekja til þess að stofnríki Efnahagsbandalags Evrópu töldu, allt frá stofnun bandalagsins 1958, að markmið landbúnaðarstefnu bandalagsins yrði ekki náð með óheftri samkeppni, enda ljóst að markmið samkeppnisreglna væru önnur en markmið landbúnaðarstefnu ESB. Því hafa undanþágureglur frá samkeppnisreglum gilt fyrir landbúnaðinn allt frá upphafi stofnunar ESB.

Nú hefur ESB ákveðið að bæta við nýrri undanþágureglu fyrir bændur og fyrirtæki þeirra á grundvelli umhverfissjónarmiða en á undanförnum árum hefur ESB lagt ríka áherslu á að auka umhverfisvernd og draga úr kolefnislosun. Þannig hefur ESB samþykkt sérstaka stefnu í þá átt – European Green Deal – og hefur einsett sér að minnka losun kolefnis um 55% fyrir 2030. Þessi nýja undanþáguregla er sett í þeim tilgangi að auðvelda bændum, sem vilja vinna að því að auka sjálfbærni og minnka kolefnislosun, að auka samvinnu og samstarf.

Aukin sjálfbærni undanþegin samkeppnislögum

Samkvæmt nýju undanþágureglunni gilda bannákvæði 101. gr. sáttmála um starfshætti ESB - sambærileg ákvæði og eru í 10. og 12. gr. samkeppnislaga – ekki um samninga, ákvarðanir og samstilltar aðgerðir framleiðenda landbúnaðarvara sem varða framleiðslu eða viðskipti með landbúnaðarvörur og hafa það markmið að innleiða sjálfbærniviðmið sem ganga lengra en viðmið innleidd af ESB eða landslögum einstakra aðildarríkja. Það er skilyrði að samningar, ákvarðanir og aðgerðir takmarki aðeins samkeppni að því marki sem nauðsynlegt sé til að ná sjálfbærniviðmiði samningsins – m.ö.o. ef umræddir samningar fela í sér að vörur eru framleiddar, þeim dreift eða þær markaðssettar með umhverfisvænni hætti en áður þá mega samningarnir takmarka samkeppni í andstöðu við bannákvæði samkeppnisreglna ESB.

Sjálfbærniviðmiðin geta m.a. verið: (a) umhverfismarkmið, t.d. minni losun koltvísýrings, betri landnýting, minnkun matarsóunar, betri nýting vatns og jarðvegs, o.s.frv.; (b) minni notkun skordýraeiturs og samstarf til að minnka áhættu samfara notkun skordýraeiturs; og (c) samstarf til að stuðla að aukinni dýravelferð og dýraheilsu. Í samningunum þarf að tilgreina sjálfbærniviðmið sem hér eru upp talin og ennfremur hvernig samningsaðilar ætla sér að ná viðmiðunum. Því þarf árangurinn að vera mælanlegur og þess eðlis að unnt sé að staðfesta hann.

Ný undanþága ESB víðtækari en þær sem fyrir eru

Þessi nýja undanþága er víðtækari en eldri undanþágur ESB. Þannig hafa sumar undanþágur gert það að skilyrði að neytendur fái sanngjarna hlutdeild í þeim ávinningi sem hlýst af. Þessi nýja undanþága er hins vegar ekki bundin slíkum skilyrðum, hún gildir sérstaklega fyrir framleiðendur landbúnaðarvara og þeir njóta ávinningsins.

Svo dæmi sé tekið þá geta garðyrkjubændur gert samninga til að minnka notkun plasts í framleiðslu sinni eða minnka notkun varnarefna. Slíkur samningur myndi falla undir hina nýja undanþágureglu og það jafnvel þótt að aðilar samningsins myndu allir hækka verð sitt vegna aukins framleiðslukostnaðar. Þá útilokar undanþágureglan ekki að verslunarkeðjur eigi aðild að samningum sem þessum ef það kynni að auka líkur á því að sjálfbærniviðmiði samningsins yrði náð.

Sömu tækifæri fyrir íslenska framleiðendur?

Íslensk stjórnvöld hafa boðað að þau hyggist beita sér fyrir því að bændur dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda og þessi nýja undanþáguregla getur fallið  vel að þeirri stefnu. Þá er hún einnig í samræmi við stefnumið landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til 2040 – að tryggja með löggjöf að innlendir framleiðendur landbúnaðarvara hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði eru nú að greina þessa nýju undanþágu til hlítar og í framhaldinu munum við efna til samtals við stjórnvöld um það hvort að ekki beri að fylgja þessu fordæmi frá meginlandi Evrópu með það að markmiði að auðvelda bændum og fyrirtækjum þeirra að ná metnaðarfullum markmiðum í umhverfismálum og styrkja samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu.

Höfundur er Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. apríl 2024