Kjötafurðastöðvum veitt heimild til samstarfs, verkaskiptingar og sameiningar

Afurðastöðvum í kjötiðnaði er nú heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu að því er varðar framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara, þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga. Var frumvarp þess eðlis samþykkt á Alþingi nú rétt í þessu.

Afurðastöðvar sem nýta sér þessa heimild þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði þar sem þeim verður skylt að safna afurðum frá framleiðendum kjötvöru á sömu viðskiptakjörum, skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn, óheimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila og að framleiðendur hafi rétt til að eiga einungis viðskipti um afmarkaða þætti, svo sem slátrun.

Þá skal fyrir lok árs 2028 unnin skýrsla þar sem metið verður sérstaklega hver ávinningur bænda og neytenda hafi verið og hvernig tekist hafi til með hliðsjón af undirliggjandi markmiðum búvörulaga.

“Hér er um að ræða mikinn áfangasigur fyrir íslenskan landbúnað. Við erum að færa starfsumhverfi landbúnaðarins nær því sem þekkist í nágrannalöndum okkar og veita landbúnaðinum tækifæri til að ráðast í tímabæra endurskipulagningu og hagræðingaraðgerðir, bændum og neytendum landsins til heilla.” segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.

Hér má lesa frumvarpið

Hér má lesa nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar