Aðgerðaráætlanir með landbúnaðarstefnu og matvælastefnu til umsagnar

Matvælaráðuneytið hefur nú birt aðgerðaráætlun landbúnaðarstefnu og aðgerðaráætlun matvælastefnu í samráðsgátt stjórnvalda. Er umsagnarfrestur til 21. mars næstkomandi.

Í júní 2023 voru samþykktar á Alþingi annars vegar landbúnaðarstefna til 2040 og hins vegar matvælastefna til 2040. Var þá boðað að lagðar yrðu fram aðgerðaráætlanir vegna stefnanna. Aðgerðaráætlanirnar eru til fimm ára og er ætlað að ná yfir verkefni stefnanna á forræði matvælaráðuneytisins sem verða í forgangi á tímabilinu. Í því felst forgangsröðun en lögð er áhersla á að setja fram afmarkaðar og tímasettar aðgerðir, sem ráðuneytið telur raunhæft að komist í framkvæmd á því tímabili sem áætlunin nær yfir. Forsendur einstakra aðgerða eru ekki ljósar í öllum tilvikum og byrja verður á því að draga þær fram til að hægt sé að kostnaðarmeta og fjármagna þær aðgerðir þar sem það á við.