SAFL ganga til liðs við SI

Samtök fyrirtækja í landbúnaði, SAFL, hafa gengið til liðs við Samtök iðnaðarins, SI, en samkomulag þess efnis hefur verið undirritað í Húsi atvinnulífsins.

Með samkomulaginu verða öll félög innan SAFL aðilar að SI og þar með Samtökum atvinnulífsins. Þannig bætast um tuttugu fyrirtæki í hóp 1.700 félagsmanna sem fyrir eru í Samtökum iðnaðarins. SAFL verða áfram fullgild félagasamtök með sjálfstæða stjórn, sjálfstæðan fjárhag og starfandi framkvæmdastjóra.

SAFL var stofnað í mars 2022 m.a. með það að markmiði að efla ímynd og styrkja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar, stuðla að hagkvæmni í greininni og vera í forsvari gagnvart stjórnvöldum í málum er snerta hagsmuni og réttindi félagsmanna.

Árni Sigurjónsson, formaður SI: „Það er mikið fagnaðarefni að SAFL gangi til liðs við SI. Þetta er svo sannarlega góður liðsauki því innan SAFL eru mörg af stærstu og öflugustu fyrirtækjum í íslenskum matvælaiðnaði og landbúnaði. Í sameiningu munum við vinna að því að efla þessar mikilvægu atvinnugreinar enn frekar.“

Sigurjón R. Rafnsson, formaður SAFL: „Það er ánægjulegt að SAFL gangi til liðs við stærstu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi og styrki þannig rödd landbúnaðarins í umræðu og stefnumótun íslensks atvinnulífs í heild. Mörg af helstu hagsmunamálum SAFL eru af sama meiði og SI vinna að í dag. Við hlökkum því til samstarfsins.“

Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurjón R. Rafnsson, formaður SAFL, skrifa undir samkomulagið í Húsi atvinnulífsins. Mynd/BIG