Morgunfundir um landbúnaðarmál

Samtök fyrirtækja í landbúnaði og Bændasamtök Íslands efna til morgunfundaraðar um landbúnaðarmál.

Erna Bjarnadóttir verður með erindi á morgunfundi 18. janúar nk.

Fyrsti morgunfundurinn verður haldinn 18. janúar nk. kl. 9-10 í húsakynnum Mjólkursamsölunnar að Bitruhálsi 1 í Reykjavík. Þá mun Erna Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Mjólkursamsölunni, fjalla um innflutning á landbúnaðarafurðum og tollamál.

Fundirnir eru hugsaðir sem umræðuvettvangur fyrir hvers konar málefni er snerta landbúnaðinn. Fundirnir verða með óformlegu sniði þar sem fólki gefst tækifæri til að kynna sínar athuganir og hugmyndir og eftir að framsögu lýkur gefst tími til fyrirspurna og almennra umræðna.

„Það er töluverð eftirspurn eftir frekari umræðum um málefni landbúnaðarins í samfélaginu í dag, hvort sem er frá þeim sem starfa í greininni, stjórnmálafólki eða öðrum. Með þessu framtaki viljum við efla og auðga umræðuna og veita tækifæri til frekari upplýsingamiðlunar“ segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri SAFL.

Morgunfundirnir eru opnir öllum.

Áhugasamir geta skráð sig á póstlista og fengið upplýsingar um komandi fundi með því að senda póst á safl@safl.is