'}}
Auka þarf matvælaframleiðslu á Íslandi

Matvælaframleiðsla þarf að aukast um 60% á heimsvísu fyrir árið 2050 frá því sem var árið 2010 þannig að nægur matur verði til en þá verður mannfjöldi heimsins orðinn 9,7 milljarðar. Samhliða fólksfjölgun munu matarvenjur fólks einnig breytast, sérstaklega í þeim löndum þar sem hagvöxtur er að aukast. Til að mæta þessari þróun er nauðsynlegt að auka framleiðni, sjálfbærni og skilvirkni matvælakerfa heimsins. Ísland er þar ekki undanskilið.

Samkvæmt spám Hagstofu Íslands verða Íslendingar orðnir tæplega 550 þúsund árið 2050 er 42% fleiri en nú er. Spurningin sem vaknar þegar slíkar spár koma fram er: Hvernig verðum við í stakk búin til að fæða þennan fjölda?

Markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu minnkar

Íslendingum hefur fjölgað um tæp 40% frá aldamótum eða úr um 280 þúsund í 388 þúsund. Samhliða hefur fjöldi ferðamanna sem sækir Ísland heim ár hvert aukist mjög. Á sama tíma, þ.e. árin 2000-2022, hefur innlend kjötframleiðsla vaxið um 36% og mjólkurframleiðsla um tæp 40%. Langþyngst vegur þreföldun í framleiðslu á alifuglakjöti. Grænmetisframleiðsla hefur hins vegar nokkurn veginn staðið í stað á heildina litið.

Markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu minnkaði á tímabilinu 2009-2019. Hlutdeild íslensks grænmetis fór úr 56% í 43% og hlutdeild innlendrar kjötframleiðslu lækkaði sömuleiðis úr 98% í 90%. Kjötinnflutningur er fyrst of fremst bundinn við svína-, nauta- og alifuglakjöt og nam innflutningur í þessum flokkum árið 2022 um og yfir fjórðungi af markaðshlutdeild, umreiknað í kjöt með beini.

Innlend framleiðsla hefur staðið í stað um árabil

Heildarframleiðsla grænmetis hérlendis nam tæplega 14.300 tonnum árið 2022. Kartöflur eru rúmlega helmingur framleiðslunnar þrátt fyrir 27% samdrátt frá aldamótum. Athygli vekur að árið 2022 var heildarframleiðslan nánast á pari við árið 2000, þrátt fyrir að stefna stjórnvalda hafi um nokkurt skeið verið að auka grænmetisframleiðsluna. Ljóst er að sú stefna hefur ekki skilað tilætluðum árangri.

Heildarframleiðsla á kjöti hefur haldist nær óbreytt undanfarinn áratug þrátt fyrir mikla fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna. Framleiðsla á kindakjöti hefur minnkað ár hvert undanfarin 6 ár, svínakjötsframleiðsla hefur nær staðið í stað um langt skeið og sama höfum við séð í alifuglakjöti frá árinu 2017. Nautakjötsframleiðsla jókst nokkuð árin 2016-2017 en hefur staðið í stað síðan þá.

Mikilvægt að nýta landsins gæði

Markmið búvörulaga er m.a. „...að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu“. Óraunhæft er að þetta eigi við öll matvæli sem þjóðin þarf á hverjum tíma en mikilvægt er að við nýtum tækifærin sem til staðar eru til að auka framleiðslu í þeim flokkum sem hægt er, eins og raunar er sömuleiðis tiltekið sem eitt markmiða laganna.

Um 20% af Íslandi flokkast sem landbúnaðarland en aðeins um 6% sem ræktarland samkvæmt nýlegu mati Þjóðskrár Íslands. Þó er lítill hluti þess þegar ræktaður eða einungis 1,6%. Hér eru því augljós tækifæri. Með aukinni eftirspurn eftir matvælum á heimsvísu ber okkur ríkari skylda en ella til þess að nýta landbúnaðarland okkar með sjálfbærum hætti og þau tækifæri sem felast í grænu orkunni og hreina vatninu eftir fremsta megni. Það kæmi skringilega fyrir ef við treystum á aðrar þjóðir að framleiða matvæli fyrir íslenska þjóð á meðan við byggjum að ónýttu landbúnaðarlandi þegar eftirspurn eftir matvælum eykst sífellt í heiminum. Nýting landbúnaðarlands okkar styður ennfremur loftlags­markmið, þ.e. að rækta mat innanlands og flytja stutta leið til bæja og borga í stað þess að sigla meira en 1.300 sjómílur með erlenda matvöru með tilheyrandi kolefnisfótspori.

Grípa þarf tækifærin

Staða íslensks landbúnaðar hefur verið þung um nokkurn tíma. Meðalaldur bænda er hár, nýliðun hæg og fleiri snúa sér að öðrum atvinnugreinum þar sem afkoman hefur lengi verið léleg. Hins vegar eru mörg tækifæri til að bæta samkeppnishæfni og rekstrarskilyrði greinarinnar. Sum verkefni eru komin af stað sem er vel. Má þar nefna ræktun sauðfjár með verndandi arfgerð gegn riðu, hröðun kynbótastarfs í nautgriparækt með erfðamengisúrvali og eflingu kornræktar. Önnur verkefni sem er brýnt að ráðast í eru m.a. heimild til hagræðingar í sláturiðnaði og skattaívilnanir sem hvati til nýliðunar, en báðum atriðum er beitt í Noregi og ESB.

Þá eru enn önnur mál sem athygli stjórnvalda ætti að beinast að í frekari mæli. Fast niðurgreiðsluhlutfall flutnings og dreifingu á raforku til garðyrkjubænda er aðgerð sem myndi flokkast sem „auðtíndur ávöxtur“ og myndi veita garðyrkjubændum meiri vissu og öryggi til að byggja áætlanir á. Kyngreining á sæði í nautgriparækt er annað verkefni sem gæti skilað þónokkrum ábata.

Fjölmörg tækifæri og fyrirmyndir eru til staðar til að styrkja matvælaframleiðsluna og ljóst er að þörfin er það líka. Ætli Ísland sér ekki að verða eftirbátur samanburðarlandanna í matvælaframleiðslu þarf að taka verkefnin föstum tökum og vinna þau áfram - öllum til heilla.

Höfundur er Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. janúar 2024