Misræmi í gögnum um innflutning landbúnaðarvara frá ESB

Þann 23. október 2023 var birt skýrsla fjármála- og efnahagsráðuneytis um innflutning landbúnaðarvara frá ESB til Íslands og greining á misræmi milli gagna ESB og Íslands. Skýrslan staðfestir það sem áður hefur verið bent á, það er að misræmi er til staðar í skráningu á inn- og útflutningstölum milli Íslands og ESB á vörum sem fluttar eru inn til Íslands. Nær skýrslan til ársins 2021.

600 tonn af kjúklingakjöti misflokkað

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að töluvert misræmi er í tölum fyrir unnið fryst kjúklingakjöt (vöruliður 160232) þar sem mun meira magn er í útflutningstölum ESB til Íslands eða um 600 tonn þegar mest var. Heildarframleiðsla alifuglakjöts á Íslandi árið 2022 var um 9.500 tonn og samsvarar magnið því um 6,3% af innlendri framleiðslu. Er dregin sú ályktun í skýrslunni að hér sé um misflokkun milli kafla tollskrárinnar að ræða og varan sé skráð inn til Íslands í öðrum vöruflokki, sem kjúklingakjöt fryst (vöruflokkur 020714). Í þessari misflokkun getur falist fjárhagslegur ávinningur fyrir innflutningsaðila þar sem tollar á vörur í vöruflokki 207 eru lægri en í vöruflokki 1602. Þá getur einnig falist ávinningur í því að nota úthlutaðan tollkvóta frá ESB fyrir kjúklingakjöt.

Mikið misræmi í inn- og útflutningstölum á mjólkur- og undanrennudufti

Í skýrslunni kemur einnig fram að mikið misræmi er í vörulið 0402 sem nam hæst yfir 300 tonnum árið 2019. Þess má geta að það samsvarar 3 milljónum lítra af mjólk/undanrennu eða um 2% af stærð heildarmjólkurframleiðslu hérlendis. Ekki finnast skýringar á þessu misræmi. Hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir innlenda framleiðendur og mikilvægt að komist verði til botns í þessu misræmi.

Grípa þarf til verulegra úrbóta

Í skýrslunni eru lagðar fram ýmsar tillögur til úrbóta en ljóst er að nauðsyn er á að bæta verulega tollframkvæmd og tollaeftirlit. Mikilvægt er að hagskýrslur séu sem réttastar m.a. til að tryggja framfylgni viðskiptasamninga þó ekki síður sem grunnur að gerð og endurskoðun slíkra samninga í framtíðinni.

Skýrsluna má nálgast með því að smella hér.