Frumvarp um framleiðendafélög tekur ekki á vanda afurðastöðvanna

Breyting á bú­vöru­lög­um, sem ætluð er veita fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir meirihlutastjórn frumframleiðenda heimild til að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum, hefur verið til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda undanfarnar 2 vikur. Umsagnarfrestur rann út í gær, 17. október og bárust 7 umsagnir um málið.

Fyrr í haust voru kynnt áform um breytingar á búvörulögum, sem ætlað var að styrkja stöðu og sam­taka­mátt frum­fram­leiðenda bú­vöru og ýta und­ir sam­vinnu og hagræðingu í vinnslu og markaðssetn­ingu. Þau drög sem nú hafa verið kynnt eru ekki fyllilega í samræmi við það né grundvöll nýsamþykktrar landbúnaðarstefnu að því er varðar hagræðingarmöguleika í greininni. Frumvarpið er ekki til þess fallið að leiðrétta aðstöðumun íslenskra bænda og fyrirtækja þeirra og geta Samtök fyrirtækja í landbúnaði ekki stutt framlagningu þess í þeirri mynd sem það var kynnt í samráðsgáttinni. Þetta kemur fram í umsögn SAFL um málið.

Frumvarpið byggir á eldri vinnu sem áður hafði verið hætt við

Af lestri frumvarpsdraganna er ljóst að þau byggja að nær öllu leyti á eldri frumvarpsdrögum Kristjáns Þórs Júlíussonar, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem birt voru á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í maí 2021 en fóru þó aldrei í samráðsgátt. Núverandi frumvarp er að mestu óbreytt frá hinu fyrra frumvarpi utan þess að í stað þess að kveða á um að frumframleiðendafélög, sem er að einhverju leyti í eigu óskyldra aðila, þurfi að vera undir stjórn frumframleiðenda, er nú kveðið á um að í slíkum félögum þurfi frumframleiðendur að hafa að lágmarki 51% atkvæðisréttar í félaginu.

Ekki heimild til sameiningar

Frumvarpið felur einungis í sér að samningar milli frumframleiðenda landbúnaðarafurða og ákvarðanir félaga slíkra framleiðenda eða samtaka slíkra félaga séu undanþegin ákvæðum 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Þannig felst því ekki heimild til sameiningar afurðastöðva í undanþágureglunni. Því verður að telja að þessi nálgun nú sé ekki í samræmi við landbúnaðarstefnu til ársins 2040 en þar er kveðið á um að að innlendir framleiðendur skuli ekki hafa lakara svigrúm til annars vegar hagræðingar og hins vegar samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum okkar.

Frumvarpið mun ekki gagnast nema litlum hluta afurðastöðva

Það vekur furðu að stuðst hafi verið við eldra frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í þessari atrennu málsins, sem eingöngu var birt til kynningar en ekki samráðs, þegar ljóst er að eldra frumvarp hefði ekki gagnast mörgum sláturleyfishöfum sem taka við sauðfé og stórgripum. Við vinnslu fyrra frumvarps kom fram að krafa um að bændur færu með skýran meirihluta atkvæðavalds í afurðastöð myndi ekki gagnast mörgum afurðastöðvum landsins. Sú staða er í reynd afleiðing uppsafnaðs vanda afurðastöðva sem hafa þurft að leita leiða til að fjármagna rekstur sinn, m.a. með utanaðkomandi fjárfestingum. Þannig myndi frumvarpið einna helst gagnast afurðastöðvum sem slátruðu alifugla- og svínakjöti en ekki nautgripum og sauðfé þar sem vandinn er mestur.

Af þessu er ljóst að nálgun frumvarpsins mun ekki styrkja núverandi framleiðslukerfi landbúnaðar hér á landi og ekki taka á þeim vanda sem uppi er í sauðfjár- og stórgripaslátrun.