Innflutningur á kjöti eykst til muna

Töluverð aukning er á innflutningi fyrstu 6 mánuði þessa árs m.v. sama tímabil fyrri ár í öllum flokkum kjöttegunda. Mesta aukningin er á innflutningi á nautakjöti eða 66%. Svipuð aukning er í innflutningi á alifuglakjöti sem fer úr 776 tonnum í 1.255 tonn, aukning um 62%. Alls voru flutt inn 493 tonn af alifuglakjöti frá Úkraínu á tímabilinu. Þá hefur töluvert verið flutt inn af kindakjöti eða 15,2 tonn á fyrstu 6 mánuðum ársins.

Nautakjöt

Í flokki nautakjöts (vöruliðir 0201 og 0202) er aukningin 66% frá fyrri árshelming 2022. Frystar nautalundir hafa verið stærsti einstaki flokkurinn á fyrri árshelmingi undanfarin ár en árið 2023 falla þær í annað sæti á eftir „annað fryst úrbeinað kjöt af nautgripum“ sem hafði áður skipað þriðja sæti. Líkt og áður er mest flutt inn af nautakjöti frá Þýskalandi og Danmörku.

Sala innlendrar framleiðslu hefur dregist saman um 7% fyrstu 6 mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu hefur farið lækkandi á umræddu tímabili undanfarin 3 ár og fer niður í 67,5% á fyrstu 6 mánuðum þessa árs. Athygli vekur að í maí og júní féll markaðshlutdeild innlends nautakjöts undir 60% (Mælaborð landbúnaðarins*).

Alifuglar

Innflutningur á alifuglakjöti (vöruliður 0207) hefur aukist verulega undanfarin ár og jókst um 62% fyrstu 6 mánuði ársins m.v. sama tímabil árið 2022. Fer magnið úr 776 tonnum í 1.255 tonn. Undanfarin ár hefur mest verið flutt inn frá Danmörku og Þýskalandi en á fyrri árshelmingi 2023 kemur langstærstur hluti alifuglakjöts frá Úkraínu eða 493 tonn. Danmörk fylgir þar á eftir með 373 tonn. Þá skipar Litháen 3. sæti í fyrsta sinn en 176 tonn af alifuglakjöti komu þaðan til landsins.

Svínakjöt

Í flokki svínakjöts (vöruliður 0203) hafa verið flutt inn 810 tonn á fyrri árshelmingi 2023 og er aukningin 15,4% frá sama tímabili í fyrra. Frystar beinlausar síður eru eftir sem áður stærsti einstaki flokkurinn og Þýskaland og Danmörk helstu viðskiptalönd.

Markaðshlutdeild innlendrar svínakjötsframleiðslu hefur farið niður á milli ára og stendur nú í um 72%. Á fyrri árshelmingi árið 2021 var markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu um 85%.

Kindakjöt

Í flokki kindakjöts (vöruliður 0204 og 0210) voru flutt inn 15,2 tonn á fyrstu 6 mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra höfðu einungis verið flutt inn 354 kíló. Mest hefur verið flutt inn af hryggvöðvum eða 9,2 tonn og 4,2 tonn af hrygg og hryggsneiðum. Helstu viðskiptalönd eru Spánn og Bretland.

Unnið úr gögnum frá Hagstofu Íslands og Mælaborði landbúnaðarins.

*Athugið að allir útreikningar á markaðshlutdeild er innflutningur umreiknaður til ígildis kjöts með beini. Er það gert vegna þess að tölur yfir innlenda framleiðslu og sölu eru skráðar með þeim hætti.