Áform um breytingu á búvörulögum, sem ætlað er að styrkja stöðu og samtakamátt frumframleiðenda búvöru og ýta undir samvinnu og hagræðingu í vinnslu og markaðssetningu, hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur er til 11. september næstkomandi.
Markmið fyrirhugaðrar lagasetningar er að heimildir bænda til samstarfs og samvinnu í afurðasölumálum verði formfestar og ekki þrengri en tíðkast í samanburðarlöndum. Í samráðsgáttinni segir að frumvarpið sem fyrirhugað er að leggja fram muni heimila fyrirtækjum í meirihlutaeigu framleiðenda að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Þá segir einnig að einkum verði horft til reglna ESB og Noregs á þessu sviði. Með þeim hætti verði stefnt að því að styrkja stöðu framleiðenda búvara og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar. Þá verði tryggt að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og starfsemi en tíðkast í nágrannalöndunum.