Drög að nýrri gjaldskrá MAST væru reiðarslag fyrir landbúnaðinn

Nokkrar umræður hafa skapast undanfarna daga vegna draga að nýrri og endurskoðaðri gjaldskrá MAST sem kynnt var í samráðsgátt í vor. Umsagnir bárust frá þremur aðilum og voru allir umsagnaraðilar sammála um skaðsemi breytinganna. Áður höfðu SAFL og Bændasamtök Íslands sent bréf á matvælaráðherra þar sem farið var fram á að drögin yrðu dregin til baka, enda hefðu þau í för með sér grundvallarbreytingu á innheimtu eftirlitsgjalda og gríðarlegan kostnaðarauka fyrir íslenskan landbúnað.

Umsagnarfrestur á samráðsgátt stjórnvalda var til 2. apríl sl. og síðan þá hafa engar fregnir borist frá matvælaráðuneytinu um hvað verður.

Í umsögn SAFL var lögð áhersla á eftirfarandi atriði:

  1. Með drögum að nýrri gjaldskrá er verið að boða aukalega 480 milljón krónur í gjöld á greinina á sama tíma og sambærilegar greiðslur og bárust til landbúnaðarins á árinu 2022 vegna verðhækkana á aðföngum njóta ekki við. Augljóst er að greinin ber ekki þessar miklu sveiflur.
  2. Boðað er að gjald fyrir daglegt eftirlit í sláturhúsum hækki um 166% og gjald fyrir almennt eftirlit um 87%. Er þessi hækkun boðuð á sama tíma og alger óvissa er uppi um hvort fyrirtæki í slátrun og kjötvinnslu verði gert kleift að ná fram nauðsynlegri endurskipulagningu og hagræðingu.
  3. Með nýrri gjaldskrá væri verið að leggja gríðarlegan aukakostnað á greinina. Minni fyrirtæki hafa tjáð sig um að þau telji sinn rekstur ekki geta staðið undir þessum kostnaði og þau muni neyðast til að hætta starfsemi verði gjaldskráin samþykkt. Nú þegar hafa Seglbúðir tekið ákvörðun um að slátra ekki í haust.
  4. Stærri sláturleyfishafar einnig búið við þrönga stöðu og hafa t.a.m. ekki geta ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar sem hefur valdið því að greinin hefur dregist aftur úr öðrum löndum hvað tækni varðar. Ekki hefur verið fjárhagslegt svigrúm til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar í nýjum sláturlínum en stærstu sláturlínur eru frá áttunda og níunda áratugnum. Ljóst er að svigrúm til að standa straum af þeim hækkunum sem boðaðar eru í drögunum er ekki til staðar.
  5. Í drögunum er ekki gætt nægjanlega að mörkum milli skatta og þjónustugjalda. SAFL telja að hin mikla hækkun á tekjum MAST sem boðaðar voru sé svo mikil að hún feli í raun í sér skattheimtu frekar en álagningu þjónustugjalda.
  6. Athygli vakti að verulegt ósamræmi var milli greinargerðar þeirrar sem fylgdi drögum að nýrri gjaldskrá og þeirrar sem fylgdi fyrrnefndu frumvarpi þegar kom að áætlaðri hækkun á rekstrartekjum MAST með innleiðingu gjaldskrárinnar, þrátt fyrir að bæði mál væru byggð á sömu kostnaðargreiningu. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að gera mætti ráð fyrir hækkun um  300-400 milljónir króna frá því sem nú er en í greinargerð með drögum að gjaldskrá MAST kemur fram að upphæðin nemi rúmlega 482 milljónum króna. Um er að ræða í besta falli rúmlega 20% meiri hækkun en boðuð var í umræddu frumvarpi og í versta falli rúmlega 60% hækkun.
  7. Með fækkun gjaldliða úr 70 í 2 verður mun óljósara en áður fyrir hvaða vinnu er nákvæmlega verið að innheimta gjald fyrir. Þannig er dregið úr gagnsæi gjaldheimtunnar.
  8. Sú breyting að fara úr eftirlitsgjaldi á hvert kíló yfir í tímagjald er ekki til þess fallin að ná fram hámarksnýtingu á tíma starfsfólks MAST við eftirlit og mun draga úr skýrleika þess kostnaðar sem sláturleyfishafar greiða. Þá er þessi leið algerlega á skjön við það aðhald sem stjórnvöld hafa talað fyrir í ljósi hárrar verðbólgu í landinu.

Hægt er að lesa umsögn SAFL með því að smella hér.