Boðaðar breytingar á svæðisbundinni flutningsjöfnun

Innviðaráðuneytið birti nýverið áform um breytingar á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun í samráðsgátt stjórnvalda.

Tvenns konar breytingar á regluverkinu verða lagðar til:

  • Hækkun á endurgreiðsluhlutfalli flutningskostnaðar sem hækka hlutfallslega eftir því sem flutningur vöru eða hrávöru er lengri. Slík breyting myndi fela í sér auknar styrkveitingar fyrir minni framleiðendur.
  • Byggðastofnun leggur til að engin skerðing á endurgreiðsluhlutfalli verði á öllum umsóknum upp að 1,25% af heildarfjárveitingu hvers árs.

Markmið boðaðra breytinga hafa það helst í för með sér að styrkveitingar fyrir minni framleiðendur aukast og er það á kostnað framleiðenda sem stærri eru. Markmið laganna er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni sem býr við skerta samkeppnisstöðu vegna lengri flutningsleiða og þar með hærri flutningskostnaðar.

Í umsögn Samtaka fyrirtækja í landbúnaði kemur fram að samtökin styðja þau áform um að styrkja betur stöðu minni framleiðenda. Hins vegar væri mikill ávinningur af því að auka fjárveitingar til verkefnisins samhliða vaxandi flutningskostnaði og aukinni ásókn í styrkinn.

Heildarupphæð umsókna hefur aukist mjög undanfarin ár sökum hækkandi flutningskostnaður án þess að fjárveitingar til svæðisbundinnar flutningsjöfnunar hafi aukist. Þannig var sú fjárhæð sem sett hefur verið á fjárlög ekki fullnýtt fyrr en fyrir árið 2018, þegar heildarupphæð umsókna var í fyrsta sinn hærri en það fé sem var til ráðstöfunar. Síðan þá hefur hlutfall greiddra styrkja af umsóknum dregist saman ár frá ári og stendur nú einungis í 57-67% líkt og áður hefur komið fram. Ætla má að þetta hlutfall haldi áfram að minnka með vaxandi flutningskostnaði.

Þessi þróun leiðir af sér að markmiði laganna, um að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni sem býr við skerta samkeppnisstöðu vegna lengri
flutningsleiða og þar með hærri flutningskostnaðar, er ekki náð með sama hætti og áður. Styrkurinn er mikilvægt verkfæri til þess að bæta hluta þess aðstöðumunar sem fyrirtæki og
framleiðendur sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn búa við. Því er mikill ávinningur í því að fjárveitingar til verkefnisins haldist í hendur við vaxandi
flutningskostnað.