Réttum stöðu landbúnaðarins

Formaður Viðreisnar steig í pontu Alþingis í síðustu viku þar sem hún gaf í skyn að Samtök fyrirtækja í landbúnaði styddu ekki við Úkraínumenn í baráttu sinni gegn innrás Rússlands. Þessar vangaveltur byggði hún á því að undirritaður formaður samtakanna væri heiðursræðismaður Rússa á Íslandi og sagði það setja ábendingar samtakanna, um að vænlegra væri að velja önnur stuðningsform en niðurfellingu tolla til að styðja við Úkraínu, í enn verra ljós.

Í ljósi þess að undirritaður er ekki og hefur aldrei verið heiðursræðismaður Rússa á Íslandi, né borið nokkurn annan titil sem nokkurs konar tengiliður við Rússland, fóru samtökin fram á formlega afsökunarbeiðni þingmannsins enda ljóst að um tilhæfulausa árás á samtökin var að ræða. Varð hún við því og baðst afsökunar á ummælum sínum tveimur dögum síðar.

Jöfnum samkeppnisstöðu

Um leið og beðist var afsökunar á þessum tilhæfulausu ummælum bauð formaðurinn samtökin velkomin í hóp þeirra sem berjast fyrir stuðningskerfunum sem ESB tryggir bændum en á sama tíma sagðist hún vonast eftir að samtökin „...hætti að berjast fyrir sérreglum og undanþágum fyrir sig frá samkeppnisreglum.“

Mikil er mótsögnin sem í þessu felst. Um langt skeið hefur verið ljóst að íslenskir bændur og fyrirtæki þeirra hafa búið við mun lakari rekstrarskilyrði og þrengri samkeppnislöggjöf heldur en bændur og fyrirtæki þeirra í Noregi og innan aðildarríkja ESB. Undanþágureglur frá samkeppnisreglum í Noregi og innan aðildarríkja ESB tryggja að bændur og fyrirtæki þeirra eru undanþegin tilteknum ákvæðum samkeppnislaga viðkomandi ríkja. Því til viðbótar eru í gildi tilteknar undanþágur frá samkeppnisreglum í ESB-rétti en umræddar reglur tryggja ákveðin forgangsáhrif landbúnaðarstefnu ESB gagnvart samkeppnisreglum sambandsins. Þessu er ekki að skipta hér á landi utan einnar undanþágu fyrir mjólkuriðnaðinn, en Viðreisn hefur þó barist fyrir því að sú undanþága verði með öllu afnumin og lagt fram frumvarp þess efnis í fjórgang á Alþingi.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði hafa lagt áherslu á að framangreindur aðstöðumunur verði leiðréttur og er það í samræmi við tillögur verkefnastjórnar um nýja landbúnaðarstefnu, skýrslu spretthóps matvælaráðherra og frumvarpsdrög matvælaráðherra sem kynnt voru sl. haust. Viðreisn hefur þó lagst alfarið gegn öllum slíkum hugmyndum, þrátt fyrir að þær séu í samræmi við það sem þekkist víða, m.a. innan ESB.

Ísland fer sína eigin leiðir – í ranga átt

En undanþágur frá ákvæðum samkeppnisreglna eru ekki eina sviðið sem íslenskum landbúnaði er haldið utan. Þegar íslenska tollskráin er skoðuð og borin saman við önnur EFTA lönd og ESB sést fljótt að ekkert þeirra landa kemst með tærnar þar sem Ísland hefur hælana í að afnema tolla á unnar landbúnaðarvörur. Hér er t.d. um að ræða vörur eins og croissant og súkkulaði en einnig getur þetta átt við pizzur og aðrar vörur sem innihalda t.d. minna en 20% kjöt eða ost. Noregur, Sviss og ESB leggja svokölluð verðjöfnunargjöld á þessar vörur, þar sem lagður er tollur á þau innihaldsefni sem teljast til landbúnaðarafurða. Ísland er eina landið í allri Evrópu sem ekki leggur verðjöfnunargjöld á unnin matvæli.

Á meðan aðrar þjóðir keppast við að verja sinn landbúnað og auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu virðist það keppikefli sumra íslenskra stjórnmálamanna að koma í veg fyrir framþróun landbúnaðarins hér og jafnvel finna nýjar leiðir til að veikja stöðu innlendrar framleiðslu. Þannig tókst okkur, með innleiðingu tollasamnings við ESB sem tók gildi árið 2018, að auka tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur sem fluttar eru til Íslands svo rausnarlega að við flytjum margfalt meira magn á mann til landsins en þekkist t.d. í Noregi. Sem dæmi má nefna að tollkvóti fyrir alifuglakjöt frá ESB er meiri í magni til Íslands, með tæplega 390 þúsund íbúa, en til Noregs, þar sem íbúar eru rúmlega 5,5 milljónir.

* Heimild: www.landbruksdirektoratet.no ** Útreikningar Samtaka fyrirtækja í landbúnaði

Samtal um starfsumhverfi landbúnaðarins

Ég tek því fagnandi að formaður Viðreisnar vilji stofna til samtals um starfsumhverfi landbúnaðarins. Af nægu er að taka. Til viðbótar framantöldu gætum við til dæmis rætt ranga upplýsingagjöf íslenska ríkisins til OECD sem leiðir til ofmats á opinberum stuðningi við landbúnaðinn hérlendis, þá staðreynd að Ísland fór í allt aðra átt en önnur Evrópuríki við innleiðingu samkeppnislaga árið 1993 sem leiddi til verri samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar en þekkist annars staðar, þann samdrátt sem er að eiga sér stað í íslenskri sauðfjárrækt eða hvernig opinber stuðningur við landbúnað hefur hrunið á undanförnum árum og áratugum. Málefnalegum umræðum um þessi atriði og fleiri tengdum landbúnaði er sárleg vöntun á.

Höfundur er Sigurjón R. Rafnsson, formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. júní 2023