Niðurfelling tolla á vörur frá Úkraínu

Nokkrar umræður voru á Alþingi í gær um niðurfellingu tolla á vörur sem upprunnar eru í Úkraínu. Alþingi samþykkti í júní í fyrra að fella niður tolla af vörum sem fluttar voru inn til Íslands og voru að öllu leyti upprunnar í Úkraínu til og með 31. maí 2023. Rann gildistími ákvæðisins því út í síðustu viku og hafa talsmenn innflutningsaðila gengið hart að stjórnvöldum að framlengja ákvæðið.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði lögðust gegn niðurfellingunni á sínum tíma þar sem ljóst var að þessi ákvörðun myndi einungis hafa áhrif á landbúnaðarvörur þar sem tollar á aðrar vörur höfðu áður verið felldir niður. Þannig hefur þessi tiltekni stuðningur einungis verið greiddur af einni starfsstétt á Íslandi – íslenskum bændum.

Noregur og Sviss hafa ekki fellt niður tolla á vörur frá Úkraínu

Mun vænlegra væri fyrir Ísland að fylgja fordæmi Noregs, sem hefur ekki fellt niður tolla á vörur frá Úkraínu, heldur styrkir Úkraínu með fjárframlögum og öðrum stuðningi í gegnum alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðabankann, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna og Evrópska þróunarbankann. Þá bendir allt til þess að Sviss hafi einnig stutt Úkraínu með fjárframlögum og öðrum stuðningi með aðkomu alþjóðastofnana, en ekki með niðurfellingu tolla á úkraínskar vörur.

Það er því rangt að Ísland skipi sér í sérflokk vestrænna ríkja með því að framlengja ekki niðurfellingu tolla á vörur frá Úkraínu, líkt og haldið var fram á Alþingi í dag. Réttara er að við værum að fara sömu leið og önnur lönd sem oft er litið til við stefnumótun íslenskra stjórnvalda, þ.e. Noregur sem líkt og Íslands er aðili að EFTA og að EES-samningnum, og Sviss sem einnig er EFTA ríki.

Engin varúðarregla var til staðar í íslenska ákvæðinu

Auk þess sem kostnaður þessarar tilteknu stuðningsaðgerðar hefur eingöngu verið borinn af íslenskum bændum, þá gekk íslenska ákvæðið lengra en sambærileg ákvæði í Bretlandi og ESB. Bæði Bretland og ESB settu varúðarreglu í sín ákvæði sem gerði þeim kleift að afturkalla niðurfellinguna ef hún leiddi til tjóns fyrir framleiðendur landbúnaðarvara í Bretlandi og ESB. Enga slíka varúðarreglu var að finna í íslenska ákvæðinu.

Ólga innan ESB

Bretland hefur gefið út að það muni framlengja ákvæðið til upphafs næsta árs og ESB mun framlengja um eitt ár. Hafa evrópskir bændur mótmælt mjög undanfarna mánuði og sendu nokkur lönd ákall til framkvæmdastjórnar ESB með beiðni um að grípa til verndarráðstafana og takmarka innflutning á landbúnaðarvörum frá Úkraínu þar sem innflutningurinn var farinn að valda þarlendum bændum og landbúnaðarfyrirtækjum miklu tjóni.

Þrjú aðildarríki ESB lokuðu í kjölfarið fyrir innflutning á landbúnaðarvörur frá Úkraínu með þeim rökum að markaðir þeirra væru yfirfullir af ódýrri úkraínskri vöru sem ylli þrýstingi á þarlenda bændur. Þá hafa þessar þjóðir einnig stöðvað innflutning á korni til að vernda landbúnaðarmarkaði landanna gegn óstöðugleika.

Engar mótvægisaðgerðir voru fyrir íslenska bændur

Þann 28. apríl sl. komst framkvæmdastjórn ESB að samkomulagi við stjórnvöld í þessum ríkjum en það gerir ráð fyrir að 15 milljarðar króna verði greiddir til bænda í þessum ríkjum vegna tjóns sem aukinn innflutningur hefur valdið. Þá hefur verið tilkynnt um sérstakan stuðningspakka upp á 52 milljarða króna fyrir Pólland til framleiðenda landbúnaðarvara. Eru þessar upphæðir til viðbótar við þá 75 milljarða króna sem deilt var milli aðildarríkja sambandsins árið 2022 vegna innflutnings landbúnaðarvara frá Úkraínu. Engar mótvægisaðgerðir voru í boði fyrir íslenska framleiðendur.

Úkraínskur kjúklingur þriðjungur af innflutningnum

Hið minnsta um 300 tonn af kjúklingakjöti hafa verið flutt inn til Íslands frá Úkraínu frá því ákvæðið tók gildi (til og með apríl 2023), þar af um 220 tonn á tímabilinu janúar-apríl 2023. Innflutningstölur fyrir maímánuð liggja ekki fyrir. Þannig nemur innflutningur frá Úkraínu 32,65% af öllum innflutningi á alifuglakjöti til Íslands á tímabilinu janúar-apríl 2023 og hefur aldrei verið flutt inn jafn mikið af alifuglakjöti á þessu tímabili og nú.

Engin greining fór fram af hálfu íslenskra stjórnvalda

Ljóst var af greinargerð með frumvarpinu sem samþykkt var á Alþingi 15. júní 2022 að við undirbúning frumvarpsins var ekki aflað neinna gagna um mögulegar afleiðingar innflutnings á innlenda framleiðslu. Þá lá ekki fyrir greining á hve mikið magn af landbúnaðarvörum gæti verið flutt hingað til lands. Ekkert hagrænt mat var lagt á stöðu bænda og afurðastöðva og hvaða áhrif aukinn innflutningur í einstökum vöruflokkum myndi hafa á stöðu þeirra og rekstur á gildistíma undanþágunnar.

Ljóst er að aukinn innflutningur á landbúnaðarvörum frá Úkraínu myndi hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í öðrum málaflokkum, svo sem nýsamþykkta matvælastefnu og áherslu hennar um aukna verðmætasköpun í framleiðslu matvæla hér á landi. Í nýsamþykktri landbúnaðarstefnu fyrir Ísland er enn fremur tilgreint að stuðningur við landbúnað skapi stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda framleiðslu. Framlenging á niðurfellingu tolla landbúnaðarvara frá Úkraínu myndi vinna gegn þessu markmiði.

Betra að fylgja fordæmi Noregs

Í ljósi alls framangreinds hafa Samtök fyrirtækja í landbúnaði lagst gegn því að tollar á landbúnaðarvörur frá Úkraínu séu felldir niður og bent á að betra sé að fylgja fordæmi Noregs og styðja við Úkraínu með fjárframlögum og öðrum stuðningi í gegnum alþjóðastofnanir. Með þeim hætti er tryggt að öll þjóðin taki þátt í stuðningi við Úkraínu á erfiðum tímum.