Viðreisn leggur til breytingar á búvöru- og búnaðarlögum

Þingmenn Viðreisnar hafa nú lagt fram frumvarp um breytingu á búvöru- og búnaðarlögum í fimmta sinn. Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu er að leggja niður verðlagsnefnd, afnema lögbundið hlutverk Bændasamtaka Íslands gagnvart ríkisvaldinu og afnema heimild afurðastöðva í mjólkuriðnaði að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf. Er efni lagatextans óbreytt frá því frumvarpið var lagt fram á fyrra þingi.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði hafa sent inn umsögn þar sem samtökin leggjast alfarið gegn frumvarpinu enda eru þær breytingar sem lagðar eru til algerlega í andstöðu við það starfsumhverfi sem þekkist í Noregi og innan aðildarríka ESB og myndu þær hafa gríðarleg neikvæð áhrif á íslenska landbúnaðarframleiðslu.  

Þar ber helst að nefna þá tillögu að afnema 71. gr. búvörulaga en ákvæðið felur í sér fyrrnefnda heimild afurðastöðva til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Er hér um að ræða einu undanþágureglu frá samkeppnislögum sem gildir fyrir framleiðendur landbúnaðarvara á Íslandi. Líkt og fram hefur komið eru almennar undanþágur frá samkeppnisreglum í gildi í Noregi og innan ESB. Þá talar þessi breyting fullkomlega gegn drögum að þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland en þar kemur fram að tryggja eigi með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en í náglannnalöndum okkar sem starfa samkvæmt EES-löggjöf.

Umsögn SAFL má lesa í heild sinni með því að smella hér.