Matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp um samræmingu gjaldtökuheimilda Matvælastofnunar á Alþingi og er málið nú hjá atvinnuveganefnd. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gjaldtökuheimildum MAST í fimm lagabálkum sem stofnunin sinnir verkefnum og þjónustu á grundvelli og hins vegar er bætt við gjaldtökuheimild í tvo lagabálka.
Frumvarpið hefur ekki tekið breytingum frá því að drög að því voru kynnt í samráðsgátt í haust. Samtök fyrirtækja í landbúnaði sendu inn umsögn um málið þegar það var í samráðsgátt og er vísað í þá gagnrýni sem þar birtist í greinargerð framlagðs frumvarps.
Með frumvarpinu er tekin upp ný gjaldtökuheimild í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, um gjaldtöku MAST fyrir eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun vegna aukaafurða dýra. SAFL telja engar forsendur fyrir að taka upp sérstaka gjaldtöku vegna þessa þar sem að í núverandi fyrirkomulagi er eftirlit með aukaafurðum viðhaft samhliða heilbrigðisskoðun á sláturdýrum og hefur verið innheimt eftirlitsgjald fyrir. Samtökin fagna því sérstaklega að í greinargerð frumvarpsins kemur fram að ekki sé verið að taka upp sérstaka gjaldheimtu vegna þessa eftirlits sem nú þegar er sinnt og snýr að aukaafurðum sem falla til í sláturhúsum.
Hins vegar kemur fram að þessari nýju lagaheimild sé ætlað mun víðtækara hlutverk en að hafa eftirlit með aukaafurðum dýra sem falla til við slátrun. Er þar nefnt sem dæmi eftirlit með aukaafurðum sem verða til við framleiðslu mjólkurafurða, förgun dauðra dýra og framkvæmd ráðstafana til sjúkdómsvarna.
Í umsögn SAFL um frumvarpið er vakin athygli á því að ekki liggur nákvæmlega fyrir hvers konar eftirlit er verið að vísa í í þessu samhengi. MAST gerir reglulegar úttektir vegna starfsleyfa á starfsstöðvum mjólkurafurðastöðva en hefur ekki komið að frekari vinnslu eða förgun aukaafurða í mjólkuriðnaði. Hefur sú ábyrgð verið hjá heilbrigðiseftirliti eða viðkomandi förgunaraðila sem fyrirtæki gera samning við. Sama gildir um förgun dauðra dýra en það hefur verið á borði heilbrigðiseftirlita á hverjum stað fyrir sig. Því er nauðsyn þessarar nýju gjaldtökuheimildar óskýr.