Matvælastefna

Þann 10. febrúar síðastliðinn birti matvælaráðuneytið drög að þingsályktunartillögu um matvælastefnu til ársins 2040 í samráðsgátt stjórnvalda. Er matvælastefnunni ætlað að vera leiðandi í ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Verður stefnan höfð til hliðsjónar við stefnumótun í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi, þar sem þættir sem til umfjöllunar eru verða hafðir að leiðarljósi.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði hafa sent inn umsögn um stefnuna þar sem því er fagnað að fram séu komin drög að tillögu til þingsályktunar um matvælastefnu til ársins 2040 og telja að tillagan geti orðið grunnur að stefnu fyrir íslenska matvælaframleiðslu. En þó er mikilvægt að skýra og bæta ákveðin atriði svo markmið stefnunnar nái fram að ganga.

Íslensk matvælaframleiðsla stendur að mörgu leiti nokkuð sterkt hvað arðsemi varðar, þá sérstaklega þegar litið er til sjávarútvegs. Landbúnaðurinn hefur hins vegar glímt við margvíslegar áskoranir undanfarin ár og áratugi og mikilvægt er að rétta þann mikla aðstöðuhalla sem íslenskur landbúnaður býr við í samanburði við önnur ríki í Evrópu, eigi markmið matvælastefnu eftir að ganga.

Huga þarf vel að því að samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu skerðist ekki heldur styrkist með aðgerðaáætlun sem boðað er að fylgi í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu um matvælastefnu fyrir Ísland. Í þeim efnum þarf að hafa í huga möguleika innlendrar matvælaframleiðslu m.a. út frá norðlægri legu Íslands.

Líta þarf til allra þriggja stoða sjálfbærni

Þegar fjallað er um sjálfbærni matvælaframleiðslu er mikilvægt að líta ekki einungis til umhverfislegrar sjálfbærni heldur einnig hinna tveggja stoða sjálfbærni; efnahagslegrar og félagslegrar.

Mikilvægt er að landbúnaðinum sé búið skýrt lagalegt starfsumhverfi sem styður við aukna verðmætasköpun. Nú liggur fyrir að íslenskur landbúnaður býr ekki við sömu eða sambærileg rekstrarskilyrði og önnur Evrópulönd hvað varðar mögulega hagræðingu í sláturiðnaði. Ljóst er að með aukinni hagræðingu í þeim hluta framleiðsluferils kjöts, þ.e. slátrun og vinnslu, yrði framleiðslan arðbærari og starfsemin myndi færast nær efnahagslegri sjálfbærni. Þannig yrði bæði efnahagsleg og félagsleg sjálfbærni byggðalaga þar sem kjötframleiðsla er stunduð mun traustari en ella.

Kolefnisjöfnun matvælaframleiðsu kallar á sértækt loftslagsbókhald fyrir landbúnaðinn

Einn liður framtíðarsýnar matvælastefnunnar er að hér á landi verði matvælaframleiðsla kolefnishlutlaus. Bændur og fyrirtæki í landbúnaði hafa ráðist í ýmis verkefni til að draga úr losun sem og mótvægisaðgerðir af ýmsum toga. Hafa þær aðgerðir skilað góðum árangri og hægt er að gera enn betur í þeim málum. Það ber þó að hafa í huga að hvorki orkuskipti í landbúnaði né mótvægisaðgerðir í formi skógræktar eða endurheimts votlendis hafa nokkur áhrif á mælda losun frá flokknum „Landbúnaður“ í Landsskýrslum um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report – NIR) sem Umhverfisstofnun skilar til ESB og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Af þeim sökum kallar markmið um kolefnisjöfnun matvælaframleiðslu á sértækt bókhald, þá sérstaklega hvað landbúnaðinn varðar.

Landbúnaðarvörur standa undir stærstum hluta próteininntöku einstaklinga

Samkvæmt skýrslu Landlæknis um mataræði Íslendinga standa landbúnaðarvörur undir stærstum hluta próteininntöku einstaklinga. Þar má nefna mjólkurvörur (24%) og kjöt (31%). Svo hægt sé að tryggja aðgengi að þessum mikilvægu próteingjöfum þarf sérstaklega að huga að starfsumhverfi landbúnaðarins með það að markmiði að auka arðsemi og tryggja áframhaldandi framleiðslu.

Hægt er að lesa umsögn SAFL um drög að matvælastefnu í heild sinni með því að smella hér.