Landbúnaðarstefna

Þann 10. febrúar síðastliðinn birti matvælaráðuneytið drög að þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 í samráðsgátt stjórnvalda. Byggir tillagan á grunni skjalsins Ræktum Ísland!, en þó hefur verið tekið mið af annarri stefnumótun á málefnasviðinu sem unnin hefur verið eftir útgáfu Ræktum Ísland!, svo sem stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og áherslum og verklagi við stefnumótun á sviði matvæla. Þingsályktunartillagan er einnig unnin með hliðsjón af áherslum matvælaráðherra sem og nýs matvælaráðuneytis eftir að það tók til starfa þann 1. febrúar 2022.

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að mikilvægt er hafa í huga að þessi tillaga, tillaga um matvælastefnu, landgræðslu- og skógræktarstefnan Land og líf ásamt annarri stefnumótun er allri ætlað að þjóna sömu meginmarkmiðum: að auka fæðuöryggi með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, aðferðum hringrásarhagkerfisins, sterkum samfélögum um land allt og framþróun í takt við þarfir neytenda.”

Samtök fyrirtækja í landbúnaði hafa sent inn umsögn um stefnuna þar sem því er fagnað að fram séu komin drög að tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Landbúnaðurinn er grundvöllur atvinnusköpunar og byggðafestu í hinum dreifðari byggðum ásamt því að spila lykilhlutverk í fæðuöryggi þjóðarinnar og loftslagsmálum. Landbúnaðurinn hefur hins vegar glímt við margvíslegar áskoranir undanfarin ár og áratugi. Greinin á mikið undir stefnu stjórnvalda og mikilvægt er að rétta þann mikla aðstöðuhalla sem íslenskur landbúnaður býr við í samanburði við önnur ríki í Evrópu, eigi markmið landbúnaðarstefnu eftir að ganga.

Horfa þarf til markmiða sem birtast í búvöru- og búnaðarlögum við gerð landbúnaðarstefnu

Grundvöllur þess að ná fram markmiðum tillögunnar er að tryggja að frumframleiðendur, þ.e. bændur, njóti lífskjara til jafns við aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Núverandi landbúnaðarstefna birtist í markmiðum núgildandi búvöru- og búnaðarlaga. Mörg markmiðanna sem birtast þar eiga fullt erindi í landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Þar má nefna að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur, að almenn starfsskilyrði við framleiðslu og vinnslu búvara ásamt stuðningi ríkisins stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði og að stuðningur ríkisins stuðli að áframhaldandi þróun í greininni og bættri afkomu bænda.

Innlendir framleiðendur eiga ekki að hafa lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs

SAFL taka sérstaklega undir þann lið tillögunnar þar sem kveðið er á um að tryggja með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en í nágrannalöndum okkar sem starfa samkvæmt EES-löggjöf. Í umsögn sinni benda samtökin á að undanþágureglur eru frá samkeppnisreglum í Noregi og innan aðildarríkja ESB sem tryggja að bændur og fyrirtæki þeirra eru undanþegin tilteknum ákvæðum samkeppnislaga viðkomandi ríkja. Auk þess eru í gildi tilteknar undanþágur frá samkeppnisreglum í ESB-rétti en umræddar reglur tryggja ákveðin forgangsáhrif landbúnaðarstefnu ESB gagnvart samkeppnisreglum sambandsins. Ljóst er að þessi mikli aðstöðumunur kemur í veg fyrir nauðsynlega hagræðingu sem getur orðið innan greinarinnar. Nauðsynlegt er að rétta hann af ef íslenskur landbúnaður á að geta vaxið og orðið burðug atvinnugrein.

Ekki skynsamlegt að færa opinberan stuðning frá framleiðslu

SAFL varar við því að breyta stuðningskerfi landbúnaðarins í þá átt að færa stuðning sem er greiddur út á framleiðslu í dag yfir á umhverfisleg gæði án þess að bændum séu tryggðar tekjur á móti. Markmið stuðnings við landbúnað hefur allt frá upphafi verið að tryggja neytendum gott framboð af hagkvæmum matvælum sem framleidd eru af bændum sem eru tryggð sambærileg lífskjör og öðrum þegnum samfélagsins. Mikilvægt er að þessi markmið verði áfram grunnur stuðnings við landbúnað. Ef stefnan er hins vegar að boða aukin framlög til málaflokksins með nýjum áherslum á loftslags- og umhverfismál þá þarf það að koma skýrar fram í tillögunni.

Hægt er að lesa umsögn SAFL um drög að landbúnaðarstefnu í heild sinni með því að smella hér.