Tollkvótar lækkað í verði frá gildistöku tollasamnings við ESB

Nokkrar umræður hafa skapast um úthlutun tollkvóta í kjölfar frétta um að Samkeppniseftirlitið hafi tekið til skoðunar tollvernd landbúnaðarvara fyrr í þessum mánuði. Í frétt Fréttablaðsins um málið þann 10. janúar sl. kom fram að tilefni athugunarinnar sé ábending frá framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda (FA) en hann hefur talað fyrir því að takmarka eða jafnvel koma í veg fyrir þátttöku afurðastöðva í landbúnaði í útboði tollkvóta.

Í síðustu viku ljáði þingmaður Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, máls á samkeppni á matvælamarkaði, bæði á Alþingi og í aðsendri grein í Morgunblaðinu, þar sem m.a. hún fjallar um úthlutun tollkvóta. Þar segir hún m.a. að útboðsgjald “…[hafi] hækkað endurtekið síðustu ár og er nú svo komið að það er farið að slaga upp í fullan toll með tilheyrandi hækkandi verði–þvert á hagsmuni heimilanna.”

Staðreyndin er að útboðsgjald vegna tollkvóta fyrir búvörur frá ESB nú er svipað og það var á árinu 2019 fyrir flestar tegundir að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, líkt og SAFL hefur áður bent á. Sé litið til verðþróunar tollkvóta frá því samningur við ESB tók gildi um mitt ár 2018 má sjá að verð hefur lækkað töluvert fyrir margar tegundir frá þeim tíma, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Sem dæmi hefur verð fyrir tollkvóta í osti lækkað um 14%, nautgripakjöt um 28% og alifuglakjöt um 15%.

Ýmsir áhrifaþættir á útboðsverð tollkvóta

Verð fyrir tollkvóta lækkaði (miðað við fast verðlag) á árunum 2020-2021 en ætla má að rekja megi þær sveiflur m.a. til fækkunar ferðamanna sökum heimsfaraldurs. Það er ekki óeðlilegt að eftirspurn eftir tollkvótum minnki við slíkar aðstæður. Þá hefur innrás Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022 einnig haft áhrif á framboð og framleiðslukostnað matvæla í heiminum.

Ætla má að hækkanir á útboðsverði í síðustu úthlutunum megi rekja til aukinnar eftirspurnar vegna fjölgunar ferðamanna að nýju eftir heimsfaraldur. Á tímabilinu jan-nóv 2022 sóttu 1,7 milljón ferðamanna Ísland heim samanborið við 690 þúsund á sama tímabili 2021 og 480 þúsund árið 2020 (skv. mælaborði ferðaþjónustunnar hjá Ferðamálastofu).

Þá hafa verð á evrópskum búvörumarkaði hækkað og hlutfall útboðsgjaldsins af verðinu lækkað og innflutningsaðilar treysta sér þá að bjóða hærra verð í tollkvótana, rétt eins og framkvæmdastjóri FA hefur bent á.

Því vakti það athygli að heyra þingmann Viðreisnar gefa í skyn í pontu Alþingis 26. janúar sl. að hækkun á verði útboðsgjalds megi rekja til þess að “Ýmsir innlendir framleiðendur kaupa kvóta í stórum stíl og geta þannig hindrað samkeppni við eigin vörur og stýrt verði.”

Þátttaka í útboði tollkvóta

Tollkvótar fyrir landbúnaðarvörur eru takmörkuð gæði og er þeim úthlutað af stjórnvöldum til þeirra sem sækjast eftir þeim. Löggjafanum ber að setja fyrirmæli um fyrirkomulag við að deila þeim út og búa jafnframt svo um hnútana að byggt sé á almennum efnislegum mælikvarða og gætt sé ákveðins jafnræðis.

Haft hefur verið eftir framkvæmdastjóra FA að hann telji það “eðlileg[a] ráðstöfun að innlendum framleiðendum væri ekki gefinn kostur á að bjóða í tollkvóta.” Sú hugmynd að takmarka þátttöku fyrirtækja í blönduðum rekstri sem felur m.a. í sér úrvinnslu landbúnaðarafurða frá útboði tollkvóta verður að teljast allsérstök og myndi slíkt skerða mjög atvinnufrelsi þeirra aðila og í andstöðu við yfirlýstan vilja löggjafans um að útboð tollkvóta séu opin hverjum þeim sem vill taka þátt. Stór hluti af innflutningi fyrirtækja í landbúnaðartengdri starfsemi er til þess gerður að fullnýta framleiðslulínur sem og að sinna þörfum markaðarins, rétt eins og annarra sem standa í innflutningi. Þar má nefna svínasíður sem dæmi en þær fara í beikonframleiðslu. Til fjölmargra ára hafa framleiðendur beikons úr íslenskum svínasíðum flutt inn svínasíður til að anna innlendri eftirspurn, sem hefur lengi verið umfram íslenska framleiðslu. Að skerða möguleika þessara fyrirtækja til framleiðslu væri mikið högg.

/MG