Frumvarp um hagræðingu í sláturiðnaði ekki lagt fram í vetur

Frumvarp um breytingar á búvörulögum um hagræðingu í sláturiðnaði, sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda í nóvember sl. verður ekki lagt fram í febrúar líkt og til stóð samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem birt var í haust. Þess í stað verður hafin vinna í ráðuneytinu við annað frumvarp sem heimilar fyrirtækjum í meirihlutaeigu framleiðenda að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef matvælaráðuneytisins.

„Engum dylst sú erfiða staða sem afurðastöðvar í kjötiðnaði búa við. Ljóst að hægt er að ná umtalsverðum árangri í kjötiðnaði verði greininni veittar sambærilegar undanþágur frá samkeppnisreglum líkt og þekkist alls staðar í kringum okkur en möguleg rekstrarhagræðing hefur verið metin á 0,9-1,5 milljarða króna á ári. Það eru því vonbrigði að málinu skuli enn og aftur slegið á frest.“ segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri SAFL.

Brýn þörf á endurskipulagningu og hagræðingu

Líkt og kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins hefur rekstur kjötafurðastöðva í landbúnaði verið erfiður á undanförnum árum, einkum þó í slátrun og vinnslu sauðfjárafurða. Erfiðleikar hafa einnig verið í nautakjötsframleiðslu og fleiri greinum af margþættum orsökum.

Byggði frumvarpið á niðurstöðum Spretthóps matvælaráðherra en í skýrslu hópsins, Sprett úr spori, er tiltekið að þörf væri fyrir endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu og byggði sú afstaða á gögnum unnum af sérfræðingum fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Lagði hópurinn til að veitt yrði „…tímabundin heimild í lögum, t.d. til fjögurra ára fyrir sláturleyfishafa og frumvinnslu afurðastöðva í kjötvinnslu til samstarfs um sameiningu eininga, samninga sín í millum og verkaskiptingu.“

Þá lagði verkefnastjórn um nýja landbúnaðarstefnu, Ræktum Ísland!, til að skilyrði til hagræðingar og rekstrar yrðu ekki lakari hér á landi samanborið við skilyrði í réttarkerfum nágrannalanda en í skýrslunni segir: „Fyrir liggur að bæði í Noregi og Evrópusambandinu eru almennari og rýmri ákvæði í löggjöf sem víkja til hliðar ákvæðum samkeppnislaga ef þau standa í vegi fyrir framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda.“. Þá segir ennfremur í skýrslunni: „Það er óhjákvæmilegt við mótun landbúnaðarstefnu eða starfsumhverfis landbúnaðarins að horfa til þess hvaða reglur gilda um starfsemi bænda og afurðastöðva í nágrannalöndum okkar og skapa aðilum hér ekki lakari skilyrði til rekstrar og hagræðingar en þar gilda, eftir því sem landfræðilegar aðstæður leyfa.“

Nýtt frumvarp lagt fram á haustþingi

Líkt og fram hefur komið hefur matvælaráðherra ákveðið að falla frá framlagningu frumvarpsins og hefja vinnu við annað frumvarp sem heimilar fyrirtækjum í meirihlutaeigu framleiðenda að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Í tilkynningu ráðuneytisins segir: „Einkum verður horft til reglna ESB og Noregs á þessu sviði. Með nýju frumvarpi verður stefnt að því að styrkja stöðu framleiðenda búvara og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar. Tryggt verði að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og starfsemi en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Fyrirhugað er að leggja hið nýja frumvarp fram á haustþingi.“