Hagræðing í sláturiðnaði

Þann 10. nóvember sl. birti matvælaráðuneytið í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi sem veita á afurðastöðvum í sláturiðnaði frekara svigrúm til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu í greininni. Með breytingunum er stefnt að því að styðja við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu með því að heimila afurðastöðvum í sláturiðnaði að tilteknum skilyrðum uppfylltum að stofna og starfrækja félag um flutning sláturgripa, slátrun, birgðahald og frumvinnslu afurða auk skyldra verkefna.

Í greinargerð með frumvarpinu segir um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar: “Markmið lagasetningarinnar er að styðja við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu. Þá er með þessum tillögum lagt til að fylgt sé eftir þeim markmiðum búvörulaga að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. Með aukinni hagkvæmni í slátrun má draga úr kostnaði við framleiðsluna sem er afar mikilvægt við erfiðar aðstæður. Þá getur þessi heimild orðið til þess að flýta fyrir endurnýjun í sláturhúsum og ýtt undir úreldingu síður hagkvæmra framleiðslueininga. Ef ekki verður aðhafst eru líkur á að enn muni aukast þörfin á hagræðingu og uppstokkun verði í rekstri kjötafurðastöðva með ófyrirséðum byggða- og samfélagslegum áhrifum þar sem þær starfa. Með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi gagna er lagt til að lögfest verði ákvæði til bráðabirgða til að gefa kjötafurðastöðvum afmarkaða, tímabundna heimild til hagræðingar.”

Jafna þarf samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar

Málið hefur verið til umfjöllunar um langt skeið en ljóst er að íslenskir bændur og fyrirtæki þeirra hafa búið við mun lakari rekstrarskilyrði og þrengri samkeppnislöggjöf heldur en bændur og fyrirtæki þeirra í Noregi og innan aðildarríkja ESB.

Undanþágureglur frá samkeppnisreglum í Noregi og innan aðildarríkja ESB tryggja að bændur og fyrirtæki þeirra eru undanþegin tilteknum ákvæðum samkeppnislaga viðkomandi ríkja. Því til viðbótar eru í gildi tilteknar undanþágur frá samkeppnisreglum í ESB-rétti en umræddar reglur tryggja ákveðin forgangsáhrif landbúnaðarstefnu ESB gagnvart samkeppnisreglum sambandsins.

Það var ekki síst af þessum ástæðum, auk alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu, sem verkefnisstjórn um nýja landbúnaðarstefnu fyrir Ísland og síðar Spretthópur matvælaráðherra lögðu til að veita þyrfti kjötafurðastöðvum undanþágur frá samkeppnislögum í líkingu við það sem mjólkurafurðastöðvar hafa notið allt frá 2004 á grundvelli 71. gr. búvörulaga nr. 99/1993.

Undanþágureglan þarf að ganga lengra

Í umsögn SAFL taka samtökin undir meginefni frumvarpsins og telur það geta orðið grunnur að undanþágu frá samkeppnislögum en óhjákvæmilegt sé að ganga lengra en drögin gera ráð fyrir eigi frumvarpið að ná tilgangi sínum.

Undanþáguregla frumvarpsins gengur skemur en 71. grein búvörulaga en hún felur í sér undanþágu frá ákvæði samkeppnislaga á meðan hin nýja undanþáguregla sem frumvarpið kveður á um nær einungis til 10. og 12. gr. samkeppnislaga (bann við ólögmætu samráði og bann við samkeppnishamlandi starfsemi).

Undanþáguregla frumvarpsins gengur einnig skemur en í Noregi þar sem hún tekur ekki til sölu, rannsókna, markaðssetningar, dreifingar og annarra ráðstafana til að koma vöru á markað eins og heimilt er í Noregi. Þá gengur undanþáguregla frumvarpsins skemur en undanþágureglur í Noregi þar sem þær veita ennfremur undanþágu frá 11. gr. norskra samkeppnislaga (bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu).

Þá eru reglur ESB réttar víðtækari en gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögunum þar sem að auk framleiðslu og nýtingar sameiginlegrar aðstöðu (svo sem vegna söfnunar búfjár, slátrunar, vinnslu og umbúðavinnslu) tekur regla ESB réttar einnig til söluráðstafana. Þá tekur undanþága frumvarpsins einungis til samstarfs innan félaga sem eru sérstaklega stofnuð en slíkt er ekki skylt skv. ESB reglunni sem á við um, hvort heldur sem er, samstarf bænda eða samtaka eða félaga þeirra.

Allar þær erlendu undanþágur sem hér er lýst eiga það einnig sameiginlegt að engin þeirra er tímabundin; undanþáguregla frumvarpsins er hins vegar tímabundin þar sem gildistími hennar rennur út 1. janúar 2026.

Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er stefnt á að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í febrúar 2023. Hægt er að lesa umsögn SAFL í heild sinni með því að smella hér.