Breytingar á gjaldskrárheimildum MAST

Í lok október voru birt drög að frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna gjaldskrárheimilda Matvælastofnunar í samráðsgátt stjórnvalda. Hafa SAFL sent inn umsögn vegna málsins og má lesa hana með því að smella hér.

Í greinargerð með frumvarpinu er tiltekið að markmiðið með frumvarpinu sé að samræma gjaldtökuheimildir á milli sjö lagabálka sem annast opinbert eftirlit með og styrkja lagastoðir sem mynda grundvöll fyrir gjaldtöku vegna þess eftirlits sem MAST fer með og þá þjónustu sem hún veitir. Við nánari skoðun er hins vegar ljóst að ekki er einungis um samræmingu heimilda að ræða heldur er einnig lagt til að taka upp ný eftirlitsgjöld.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 13. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, um gjaldtöku MAST fyrir eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun vegna aukaafurða dýra. Í núgildandi lögum er enga heimild til gjaldtöku að finna og því er hér um ný eftirlitsgjöld að ræða.

Í núverandi fyrirkomulagi eftirlits er eftirlit með aukaafurðum viðhaft samhliða heilbrigðisskoðun á sláturdýrum og hefur verið innheimt eftirlitsgjald vegna þess sbr. 5. gr. gjaldskrár fyrir eftirlit og aðra gjaldskylda starfsemi Matvælastofnunar nr. 392/20221. Í greinargerð frumvarpsins er hvergi vikið að því að breyting eigi að verða á fyrirkomulagi eftirlits vegna aukaafurða dýra og því eru engar forsendur fyrir að taka upp sérstaka gjaldtöku vegna þess. Auk þess er ekki lagt mat á hver kostnaðarauki fyrirtækja yrði vegna þessarar nýju gjaldheimtu. Á grundvelli þessa hafa SAFL lýst sig mótfallin frumvarpsdrögunum.