Umsögn um breytingar á búvörulögum

SAFL hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp um breytingu á búvörulögum. Með frumvarpinu er lagt til að afurðastöðvum í kjötiðnaði verði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara, þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga. Sambærilegt ákvæði gildir nú fyrir afurðastöðvar í mjólkuriðnaði.

Frumvarpið er í samræmi við boðaða landbúnaðarstefnu fyrir Ísland, sem byggir á Ræktum Ísland!, umræðuskjali um íslenska landbúnað sem unnin var árið 2021. Þar segir að við mótun rekstrarskilyrða við framleiðslu landbúnaðarvara hér á landi verði ekki komist hjá því að líta til rekstrarskilyrða í nágrannalöndum Íslands. Þar segir m.a.:

Fyrir liggur að bæði í Noregi og Evrópusambandinu eru almennari og rýmri ákvæði í löggjöf sem víkja til hliðar ákvæðum samkeppnislaga ef þau standa í vegi fyrir framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda.

Það er óhjákvæmilegt við mótun landbúnaðarstefnu eða starfsumhverfis landbúnaðarins að horfa til þess hvaða reglur gilda um starfsemi bænda og afurðastöðva í nágrannalöndum okkar og skapa aðilum hér ekki lakari skilyrði til rekstrar og hagræðingar en þar gilda, eftir þvísem landfræðilegar aðstæður leyfa.

Innflutningur kjötvara til Íslands hefur aukist umtalsvert sl. áratug. Framleiðendur í upprunalöndum þeirrar kjötvöru, sem flutt er til Íslands, njóta undanþága sem gilda í upprunalöndunum, bæði í landsrétti þessara ríkja og á grundvelli ESB-réttar. Engar slíkar undanþágur eru í gildi fyrir innlenda framleiðendur. Staða afurðastöðva hér á landi er m.a. af þessum ástæðum sérstaklega veik og er þörf á því að innleiða undanþágureglu fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði frá samkeppnislögum sem gerir þeim kleift að sameinast og eiga í nánara samstarfi en nú er.

Umsögnina má lesa hér