Stórefling innlendrar matvælaframleiðslu

Þingmenn Miðflokks hafa nú lagt fram þingsályktunartillögu um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar í þriðja sinn. Er þar lagt til að forsætisráðherra verði falið að hrinda í framkvæmd 24 aðgerðum á sviði landbúnaðar í samráði við bændur með það að markmið að styrkja rekstrarafkomu matvælaframleiðenda til að verja greinina og þau fjölþættu verðmæti sem í henni felast fyrir samfélagið.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði fagna tillögunni og þeim aðgerðum sem í henni birtast. Í umsögn samtakanna um málið er lögð sérstök áhersla á eftirfarandi:

  • Stofnaður verði sjóður til að tryggja orkuskipti í landinu, þ.m.t. í landbúnaði, að norskri fyrirmynd. Viðskiptabankar og fjármálastofnanir sem þjónusta bændur hafa talið of áhættusamt að tryggja fjármögnun í slík verkefnio g hefur ríkisvaldið því stigið inn og tryggt fjármögnun í formi sjóða.
  • Styðja þarf betur við fjármögnun landbúnaðarháskólanna svo hægt verði að ná þeim markmiðum er varða menntun, rannsóknir, ráðgjöf og nýsköpun sem birtast í drögum að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland – Ræktum Ísland!
  • Forsendur viðskiptasamnings Íslands og ESB um landbúnaðarvörur hafa breyst og mikið ójafnvægi er á milli samningsaðila, íslenskum framleiðendum í óhag. Með útgöngu Bretlands úr ESB brustu svo allar forsendur fyrir samningnum.
  • Taka þarf til skoðunar tollfrjálsan innflutning unninna landbúnaðarvara til Íslands, en Ísland eitt Evrópulanda leggur ekki verðjöfnunargjöld á erlendar unnar landbúnaðarvörur.
  • Verðmunur á dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli er í dag 33% og hefur dreifbýlisframlag úr ríkissjóði ekki haldið í við gjaldskrárhækkanir dreifiveitna í dreifbýli. Veruleg fjárfestingarþörf hefur verið hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli, umfram fyrri áætlanir, m.a. í tengslum við vaxandi kröfur um þrífösun raforku, lagningu eldri loftlína í jörð, uppgang í ferðaþjónustu undanfarin ár og aukna raforkunotkun í dreifbýli samfara því. Kostnaður vegna þessa hefur fyrst og fremst verið borinn af íbúum dreifbýlis í formi hækkandi gjaldskrár fyrir dreifingu á raforku í dreifbýli. Það er réttlætismál að þessi kostnaður sé ekki einungis borinn af þeim, enda ljóst að endurnýjun og styrking dreifikerfis er til hagsbóta fyrir alla þjóðina.
  • Staða afurðastöðva í kjötiðnaði er alvarleg og brýn þörf er á því að þeim sé veitt svigrúm til að sameinast og stækka rekstrareiningar. Með stækkun rekstrareininga er unnt að ná auknum slagkrafti í endurskipulagningu afurðastöðvanna og umtalsverðri rekstrarhagkvæmni. Verði sláturleyfishöfum og frumvinnslu afurðarstöðva í kjötvinnslu gert heimilt að starfa saman og sameina einingar, gera saminga sín í millum og skipta með sér verkum  væri rekstrarumhverfi íslenskra bænda breytt þannig að það samræmdist betur rekstrarumhverfi þeirra landa sem Ísland er iðulega borið saman við, þ.e. Noreg og aðildarríki ESB.
  • Verulega hefur skort á eftirfylgni stjórnvalda varðandi merkingar matvæla og ennfremur eftirlit með upprunamerkingum landbúnaðarvara. SAFL telja að unnt sé að vinna ötullega að þessu sameiginlega markmiði og fara þar hagsmunir stjórnvalda, bænda og fyrirtækja þeirra og ekki síst neytenda saman að öllu leyti.