Er lögmálið um framboð og eftirspurn dautt?

Grein Margrétar Gísladóttur, framkvæmdastjóra SAFL, á vef Fréttablaðsins 14. september 2022

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hefur dregið í efa að verð á vörum ákvarðist af framboði og eftirspurn sem verður að teljast ný nálgun á hagfræðikenningar síðustu 250 ára eða svo. Gerir hann það í kjölfar skrifa minna um að lægra/hærra verð á tollkvótum skili sér ekki í lægra/hærra verði til neytenda heldur hafi einungis áhrif á hvernig hagnaður af innflutningi skiptist á milli innflytjenda og ríkissjóðs. Því er ástæða til að fara nánar yfir þessi mál.

Tollkvóti er tiltekið magn vöru sem hægt er að flytja inn til landsins á lágum tollum eða tollfrjálst. Með útboði tollkvóta leggur ríkið gjald á tollkvótana og í dag ræðst útboðsverðið af lægsta samþykkta tilboði í hverjum vörulið. Tilboðin eru samþykkt frá hæsta til þess lægsta innan þess magns tollkvóta sem í boði er. Það er í höndum innflytjenda að bjóða það verð sem hver og einn treystir sér til hverju sinni og því eru verðin á tollkvótunum breytileg milli útboða. Útboðsverðið hefur hins vegar ekki áhrif á magnið sem í boði er. Magnið helst það sama -nema gerðar séu breytingar á milliríkjasamningum- og því breytir verð á tollkvótum engu um heildarframboð vara, svo framarlega sem tollkvótarnir seljast allir líkt og hefur verið raunin. Magn innan tollkvóta hefur hins vegar margfaldast frá samþykkt viðskiptasamnings Íslands og ESB sem tók gildi árið 2018 og það er þessi aukning í magni tollkvóta sem hefur áhrif á verð á markaði.

Vissulega er margt fleira sem getur haft áhrif á markaðsverð á vörum, svo sem skattar og gjöld, en það gerist þá í formi breytinga á framboði eða eftirspurn eða hvoru tveggja. Í umræðum um tollkvóta liggur það fyrir að verð tollkvótans breytir ekki framboðinu, enda allur tollkvótinn nýttur. Og því breytir verðið á tollkvótum ekki markaðsverði vörunnar.

Ég leyfði mér að tala um blekkingarleik í fyrri skrifum í ljósi þess að framkvæmdastjórinn hefur alloft lýst því yfir í fjölmiðlum að verð á tollkvótum sé of hátt og best væri hreinlega að útdeila tollkvótum án nokkurs gjalds og hefur hann haldið því fram að þar með sé það til hagsbóta fyrir neytendur. Sú aðferð myndi hins vegar ekki gagnast neytendum á nokkurn hátt því framboðið magn væri áfram það sama. Gjaldlaus útdeiling tollkvóta myndi einungis gagnast innflutningsaðilum þessara vara.

Grein Margrétar á vef Fréttablaðsins