Samtök fyrirtækja í landbúnaði stofnuð

Þann 30. mars 2022 komu saman fulltrúar stærstu fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi og stofnuðu Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL). Verkefni samtakanna í upphafi er að rétta þann mikla aðstöðuhalla sem íslenskur landbúnaður býr við í samanburði við önnur ríki Evrópu.

Landbúnaðurinn er þjóðhagslega mikilvæg atvinnugrein, ekki síst út frá sjónarmiðum fæðuöryggis en einnig byggðastefnu, loftlagsmála og fleiri þátta. Í dag hallar verulega á íslenska bændur og fyrirtæki í landbúnaði í samanburði við þá umgjörð sem landbúnaður í Evrópu býr við.

„Þegar lagðar eru saman víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum, aðlögun reglugerða að aðstæðum hvers ríkis, beinn stuðningur tengdur framleiðslu, tollvernd, tollaeftirlit, stuðningur sem tengist ekki framleiðslu, s.s. vegna byggðamála og grænna lausna í landbúnaði, tollasamningar við önnur ríki og markaðsinngrip, svo eitthvað sé nefnt, þá er óhætt að fullyrða að Ísland rekur lestina þegar kemur að því að skapa landbúnaðinum sambærilega umgjörð og þau ríki sem við viljum bera okkur saman við. Reiknaður stuðningur eins og tollvernd hefur hrapað á síðustu árum vegna samninga sem gerðir hafa verið við önnur ríki og eru okkur óhagstæðir.“ segir Sigurjón R. Rafnsson, formaður samtakanna.

„Meginástæðan fyrir stofnun samtakanna er sú brýna nauðsyn að bregðast við þessari þróun og að fyrirtæki í landbúnaði eigi aðild að hagsmunasamtökum sem geti verið í forsvari gagnvart stjórnvöldum í málum sem snerta þeirra hagsmuni.“ segir Sigurjón ennfremur.

Margrét Gísladóttir, sérfræðingur hjá Mjólkursamsölunni, gegnir stöðu framkvæmdastjóra samtakanna. Verkefni samtakanna munu auk framangreinds felast í að gæta hagsmuna íslenskra landbúnaðarfyrirtækja og umræðu um starfsumhverfi og starfsskilyrði landbúnaðar, t.d. með hliðsjón af nýrri löggjöf ásamt því að auka verðmæti og sjálfbærni í íslenskum landbúnaði.